Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 14:10:26 (718)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:10]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Tillagan byggir á skýrslu sem nefnd Alþingis um eflingu græna hagkerfisins vann. Þetta er nefnd sem var skipuð í septembermánuði 2010 og skilaði hún niðurstöðum sínum í skýrslu tólf mánuðum síðar.

Með þessu verki tekur Alþingi frumkvæði í mótun stefnu um eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Fulltrúar allra flokka á þinginu lögðu gjörva hönd á plóg í þessari vinnu. Þó að áherslur hafi verið mismunandi í einstökum atriðum náðist breið og góð samstaða um allar megináherslur skýrslunnar þó að einstakir nefndarmenn hafi viljað ganga lengra og aðrir skemur í tilteknum atriðum.

Enginn vafi er á því að Íslendingar hafa gott tækifæri til þess að skapa grænt hagkerfi sem er til fyrirmyndar með áherslu á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni. Hér á landi eru forsendur fyrir fjölbreyttri nýsköpun og fjárfestingu á grundvelli ýmiss konar umhverfistækni. Hér eru aðstæður ákjósanlegar fyrir vistvæna orkunýtingu og uppbygging græns hagkerfis er leið, líklega skynsamlegasta leiðin, til að tengja saman sjónarmið sem lúta annars vegar að því að skapa atvinnu og hins vegar að vernda umhverfið. Þetta eru sjónarmið sem oft hefur verið tekist harkalega á um í íslenskum stjórnmálum, sérstaklega á undanförnum 15 árum.

Hins vegar er víða pottur brotinn í umgengni okkar um landið og auðlindir náttúrunnar og má nefna sem dæmi nýlega meistaraprófsritgerð Sigurðar Eybergs Jóhannessonar í Háskóla Íslands sem gefur til kynna að vistspor Íslendinga sé það hæsta í heiminum. Það mælir ágang manna gagnvart jörðinni og því sem hún gefur af sér. Þá er einhæfni enn mikil í atvinnulífi okkar sem við sjáum t.d. á því að 74% af nýttri raforku í landinu fer í að þjónusta eina atvinnugrein, þ.e. áliðnaðinn. Sú atvinnugrein skapar að sönnu mikilvægar gjaldeyristekjur sem koma sér vel fyrir þjóðarbúið, ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum, en greinin er ágeng í náttúrulegu tilliti og henni fylgir losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið sem nemur 1.400 þúsund tonnum á ári og hefur nærri tvöfaldast frá aldamótum.

Til lengri tíma litið er því mikilvægt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, m.a. til þess að draga úr áhættu fyrir íslenskt þjóðarbú og viðkvæmni gagnvart utanaðkomandi þáttum, svo sem heimsmarkaðsverði og hagvexti í alþjóðahagkerfinu. Niðurstaðan er því sú að við Íslendingar höfum alla möguleika á því að taka ákveðið frumkvæði í uppbyggingu á grænu hagkerfi en það kallar á hugarfarsbreytingu, að við setjum vistvæna atvinnustarfsemi í forgang og síðast en ekki síst að við grípum til aðgerða til að fylgja þeirri stefnu eftir.

Virðulegi forseti. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir skilgreiningar á grænu hagkerfi og grænum störfum sem tímans vegna verður ekki farið yfir hér í stuttri framsöguræðu en ég vísa til þingskjalsins sem hefur að geyma efni skýrslunnar í því efni. Ég vil þó nefna að nefndin byggir á skilgreiningu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna á grænu hagkerfi þar sem segir að með grænu hagkerfi sé átt við hagkerfi sem leiði til aukinna lífsgæða um leið og dregið er verulega úr umhverfislegri áhættu og röskun vistkerfa.

Í grænu hagkerfi er áhersla lögð á atvinnustarfsemi sem dregur úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, stuðlar að bættri nýtingu orku og auðlinda og kemur í veg fyrir hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og þjónustu vistkerfa. Í stuttu máli getum við sagt að grænt hagkerfi einkennist af aukinni verðmætasköpun á sama tíma og dregið er úr álagi á náttúruna.

Þetta er afar mikilvægt atriði því að hér er hafnað viðteknum skoðunum þess efnis að verðmætasköpun og náttúruvernd séu einhvers konar andstæður. Við segjum þvert á móti: Verðmætasköpun framtíðarinnar byggir á því að atvinnulífið og náttúruverndin eigi samleið á grundvelli hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í einni setningu má reyndar segja að græna hagkerfið sé leið til þess að aðgerðabinda hugsjónina um sjálfbæra þróun þar sem virðing fyrir náttúrunni og hófleg auðlindanýting er undirstrikuð með því að jafnvægi sé á milli hagsmuna núlifandi kynslóðar og þeirra kynslóða sem á eftir okkur munu koma.

Þá erum við komin að verkefni nefndarinnar. Hún leggur fram átta almenn stefnumið sem liggja til grundvallar 48 tillögum um aðgerðir sem nefndin leggur til að myndi grundvöll aðgerðaáætlunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Ég vil nefna strax í upphafi að það er sjónarhorn nefndarinnar að þessar tillögur komi til framkvæmda í áföngum, á grundvelli þeirra verði hægt að móta í Stjórnarráðinu tímasetta áætlun sem hrint verði í framkvæmd á næstu árum og þar verði tekið ríkt tillit til stöðu ríkisfjármálanna á hverjum tíma.

Ég vil fara nokkrum orðum um þau átta stefnumið og gefa dæmi um hvernig þau birtast í einstökum tillögum nefndarinnar. Í fyrsta lagi er lögð áhersla á að ríkið setji sér það markmið að vera til fyrirmyndar í vinnubrögðum og skapi aðstæður fyrir eflingu græns hagkerfis. Þetta getur ríkisvaldið gert með stefnumótun og aðgerðum sem undirstrika pólitískan vilja til að setja málefnið í forgang. Það er grundvallarsjónarmið nefndarinnar að efling græns hagkerfis verði grundvallaratriði í þeirri atvinnustefnu sem nú er verið að móta á vegum stjórnvalda. Segja má að ákveðinn vísir að þeirri stefnumótun hafi þegar verið lagður í því víðtæka samráðsferli stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og fleiri aðila sem fram fór á sínum tíma undir merkjum Sóknaráætlunar 20/20.

Ég nefni sérstaklega og legg á það áherslu, og það er ein af megintillögum nefndarinnar hvað varðar stjórnkerfið, að þessi málaflokkur, græna hagkerfið, verði vistaður hjá forsætisráðuneytinu sem hafi með höndum það hlutverk að samþætta vinnu einstakra ráðuneyta og þá reyndar allra ráðuneyta.

Í þingsályktun um sóknaráætlun sem samþykkt var á síðasta þingi var þetta verkefni falið iðnaðarráðuneytinu en nefndin leggur áherslu á að sú ákvörðun verði endurskoðuð og forsætisráðuneytið hafi með höndum þetta verkstjórnarhlutverk, annars vegar til að undirstrika mikilvægi málaflokksins og hins vegar í ljósi þess hve verkefnið er í eðli sínu víðtækt. Þessi málaflokkur tengist í raun og veru öllum ráðuneytum að einu eða öðru leyti. Því er mikilvægt að kraftar þeirra séu nýttir sameiginlega og unnið þvert á ráðuneytin.

Jafnframt er afar mikilvægt að ríkið efni til samráðs við sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra um beina aðkomu sveitarfélaganna að þessu verkefni því að þau gegna vitanlega lykilhlutverki í því að breyta viðhorfum og vinnubrögðum á sviði atvinnumála alls staðar á landinu.

Varðandi forustuhlutverk ríkisins nefni ég líka tillögu um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um opinberar stofnanir í þá veru að skoða sérstaklega markmiðsgreinar stofnana og flétta áherslur sjálfbærrar þróunar og græns hagkerfis inn í greinar þar sem hlutverk viðkomandi stofnana eru skilgreind.

Nefndin leggur líka til að Alþingi, ráðuneyti og opinberar stofnanir taki upp markvisst umhverfisstarf til að bæta nýtingu og draga úr sóun, úrgangi og öðrum neikvæðum áhrifum á umhverfið, m.a. með hliðsjón af staðlinum ISO 14001. Liður í því verkefni gæti t.d. verið að gera Alþingi að pappírslausum vinnustað. Hér fellur til, eins og við þekkjum, á hverjum degi verulegt magn af pappír sem á eru prentuð þingskjöl, dagskrár funda og annað efni sem hefur mjög takmarkaðan líftíma og væri gustuk að því að skipta hér um vinnubrögð og draga verulega úr pappírsnotkun þannig að þingmenn notuðust frekar við ipad eða spjaldtölvur.

Eitt af því sem nefndin rak sig á á fyrstu stigum vinnunnar var að tölfræðilegar upplýsingar um umfang grænnar atvinnustarfsemi á Íslandi liggja ekki á lausu og engin kerfisbundin samantekt hefur verið gerð í því sambandi. Hér þarf að gera bragarbót og fyrsta skrefið er að taka atvinnugreinaflokkun á hagtölugerð Hagstofunnar til endurskoðunar þannig að hægt verði að greina vægi grænna atvinnugreina og fjölda grænna starfa. Á grundvelli þeirrar gagnaöflunar verður síðan hægt að setja mælanleg markmið um fjölgun grænna starfa sem er eitt hinna almennu stefnumiða sem nefndin leggur til grundvallar.

Nefndin leggur sérstaka áherslu á vistvæn innkaup hjá ríkinu en áætlað er að ríkið kaupi á hverju ári vörur og þjónustu fyrir um 100 milljarða kr. Augljóst er að ríkið hefur þar í höndunum afar öflugt tæki til að hafa áhrif á markaðinn og flýta fyrir því að vistvænar vörur ryðji sér hraðar til rúms á markaðnum. Nefndin leggur til ýmsar tillögur í þessu efni, m.a. að öll ráðuneyti og ríkisstofnanir innleiði vistvæn innkaup, að allir rammasamningar ríkisins um innkaup uppfylli viðmið umhverfisskilyrða þar sem slíkt liggur fyrir og að opinber stefna um vistvæn innkaup frá 2009 verði endurskoðuð með það að markmiði að hlutfall vistvænna útboða á vegum ríkisins verði 50% árið 2015 og 80% árið 2020. Þá er lagt til að fjárveitingar til VINN-verkefnisins, sem er stýrihópur stjórnvalda um vistvæn innkaup, verði auknar en þær nema nú rúmum 4 millj. kr. og setur það starfi þessa stýrihóps mjög miklar skorður.

Annað stefnumið nefndarinnar er að hagrænum hvötum verði beitt í auknum mæli í stað boða og banna til að efla græna hagkerfið. Þar er undirskilið að ýmis konar efnahagsleg umbun sé vænlegri leið en boð og bönn til að ýta undir þessa þróun og leggur nefndin til ýmsar aðgerðir í því efni, svo sem að hvatt verði til aukinna vistvænna innkaupa með heimild til að endurgreiða opinberum stofnunum allt að 20% af kostnaðarverði vöru og þjónustu upp að tilteknu hámarki. Sömuleiðis tillögur um endurgreiðslu á hluta af kostnaði við innleiðingu vottaðra umhverfisstjórnunarkerfa vegna orkuskipta í skipum, niðurfelling tolla á reiðhjól og tengdan búnað og framlenging á endurgreiðslu vörugjalda til þeirra sem láta breyta bílum í vistvæn ökutæki.

Virðulegi forseti. Ég nefni hér til sögunnar eitt af meginverkefnum nefndarinnar sem er að finna leiðir til að fjölga grænum störfum, en ég hef áður rakið þá annmarka sem eru á því að leggja fram marktæka áætlun um fjölgun grænna starfa af því að hagfræðilegar úttektir liggja ekki fyrir á umfangi græna hagkerfisins á Íslandi í dag. Nefndin telur afar mikilvæga forsendu þess að hægt verði að fjölga grænum störfum í þessum málaflokki að sérstakt átak verði gert í að stuðla að fjárfestingum í umhverfisvænni atvinnustarfsemi í landinu. Þar verði horft bæði til innlendra og erlendra fjárfestinga.

Í fyrsta lagi er lagt til að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði falið að undirbúa stofnun Græns fjárfestingarsjóðs með aðkomu innlendra og erlendra fjárfesta og hafa viðræður við Nýsköpunarsjóð þegar hafist í þeim efnum.

Í öðru lagi verði efnt til fimm ára átaks til að auka erlendar fjárfestingar í grænni atvinnustarfsemi, m.a. með því að nýta heimild í 15. gr. laga nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Sú grein fjallar um ýmiss konar ívilnanir vegna umhverfistengdra fjárfestinga, þar á meðal um orkusparnað og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Er það tillaga nefndarinnar að þetta fimm ára átak feli m.a. í sér val á áherslusviðum, kortlagningu á vænlegum fjárfestum, hagræna greiningu málaflokksins, kynningu og markaðssetningu. Þegar hefur verið leitað til fjárfestingasviðs Íslandsstofu um að útfæra það átak og liggja fyrir fyrstu tillögur þar að lútandi.

Enn vil ég nefna sem lið í grænni atvinnusköpun að nefndin leggur til að stofnuð verði deild innan Tækniþróunarsjóðs sem verði helguð styrkveitingum til umhverfisvænna þróunarverkefna en slík ráðstöfun gæti örvað mjög nýsköpun í þessum málaflokki.

Enn vil ég nefna það að nefndin leggur áherslu á grunnreglur umhverfisréttar sem forsendu fyrir tillögum sínum, annars vegar varúðarregluna og hins vegar mengunarbótaregluna. Nefndin leggur til að varúðarreglan verði óaðskiljanlegur hluti af efnahags- og atvinnustefnu stjórnvalda. Oft er vísað til þessarar reglu með orðunum „náttúran á að njóta vafans“ þegar kemur að skipulagningu framkvæmda en reglan var fest í sessi í kjölfarið á samþykkt Ríó-yfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun árið 1992.

Varúðarreglan kveður á um að þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu umhverfistjóni skuli ekki beita skorti á vísindalegri fullvissu sem rökum fyrir því að gera ekki neitt, þ.e. rökum fyrir því að fresta því að grípa til kostnaðarhagkvæmra aðgerða til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.

Hvernig birtist varúðarreglan í tillögum nefndarinnar? Ég vil nefna þar þrjú dæmi. Í fyrsta lagi er tillaga um að reiknaður verði framfarastuðull til að leiðrétta fyrir takmarkanir á hinum hefðbundna mælikvarða á hagvexti sem við þekkjum sem verga landsframleiðslu. Framfarastuðullinn tekur t.d. tillit til umhverfiskostnaðar, m.a. vegna mengunar og eyðingar náttúruauðlinda auk annarra þátta sem eiga að gefa nákvæmari mynd af hagsæld þjóða en fæst með því að skoða eingöngu verga landsframleiðslu.

Í öðru lagi leggur nefndin til að farið verði að ábendingum OECD um að teknar verði upp kostnaðar- og ábatagreiningar í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismati áætlana svo tryggt sé að umhverfiskostnaður sé alltaf metinn til fjár áður en ráðist er í framkvæmdir.

Í þriðja lagi vil ég nefna tillögu þess efnis að íslensk stjórnvöld staðfesti hið fyrsta viðauka VI við MARPOL-samninginn um varnir gegn mengun frá skipum og geri í framhaldinu efnahagslögsögu Íslands að sérstöku mengunareftirlitssvæði. Í þeim viðauka eru m.a. ákvæði um aðgerðir til að draga úr losun brennisteinsoxíða, köfnunarefnisoxíða og ózoneyðandi efna frá skipum. Þessi aðgerð mundi ýta undir græna atvinnustarfsemi í tengslum við sjávarútveg og siglingar þar sem nýir markaðir mundu opnast fyrir visthæft skipaeldsneyti, tæknibúnað sem bætir eldsneytisnýtingu og viðeigandi upplýsingatækni.

Þess utan, og það skiptir ekki minna máli, mundi slík aðgerð draga úr hættu á mengun á Íslandsmiðum, m.a. vegna þess að á hinum sérstöku mengunareftirlitssvæðum er svartolíubrennsla sjálfkrafa útilokuð vegna þeirrar miklu mengunar sem henni fylgir fyrir lífríki hafsins.

Ég hef rakið nokkur atriði af þeim stefnumiðum nefndarinnar sem liggja til grundvallar tillögugerð hennar í 48 liðum. Tímans vegna verð ég að geyma mér að fara yfir önnur atriði þar til síðar í umræðunni en vonast eftir góðri og uppbyggilegri umræðu og ábendingum til þingnefnda sem taka við málinu um hvernig megi gera málið betur úr garði.