Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 14:32:33 (722)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Pétur H. Blöndal erum ekki á sömu skoðun varðandi afstöðuna til virkjanaframkvæmda almennt. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nýta náttúruauðlindirnar með sjálfbærum hætti og það þýðir ekki að við förum í að virkja á öllum þeim stöðum þar sem það er tæknilega mögulegt. Við eigum að skoða samhengið við hagsmuni komandi kynslóða og sérstaklega við þau náttúrugæði sem eru undir í hverju tilfelli.

Sem betur fer erum við núna í fyrsta sinn komin með vandað tæki til að framkvæma þetta hagsmunamat, sem er rammaáætlunin um verndun og nýtingu. Þar er í fyrsta sinn farið faglega í gegnum virkjanleg svæði og metið, m.a. með tilliti til umhverfissjónarmiða og náttúrugæða, hvar er fýsilegast að virkja og hvar við eigum að vernda og láta vera að fara út í virkjanir.

Við þekkjum að um þessi atriði hefur ríkt hálfgerð skálmöld í landinu til nokkurra ára og mikil átök á milli þeirra sem hafa viljað virkja og þeirra sem hafa viljað vernda náttúruna. Ég tel að við séum komin hér með leið, uppbyggingu í vistvænni atvinnustarfsemi sem getur fært okkur nær því að sátt myndist um atvinnustarfsemi af þessu tagi og ég fagna því mjög ef það tekst.

Varðandi losun frá álverum eru það bara opinberar tölur sem ég vitnaði til um, að losun gróðurhúsalofttegunda vegna álveranna hefur aukist verulega. Hún nemur núna 1,4 milljónum tonna á ári og hefur sem sagt nærri tvöfaldast á einum áratug eða svo. Ég held að það séu staðreyndir sem erfitt er að hrekja.