Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 14:34:41 (723)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi máls míns að vitna til bandaríska fræðimannsins Thomas L. Friedmans sem sagði eitt sinn frá því þegar hann fór í heimsókn til Kína fyrir nokkrum árum og flutti erindi á stórri ráðstefnu fyrir kínverska iðjuhölda. Þar spurðu Kínverjarnir bandaríska fræðimanninn að því hvort ekki væri kominn tími á þá, nú hefðu Bandaríkjamenn fengið að menga að vild í 150 ár, byggt upp iðnbyltingu sína og lífsgæði, og hvort ekki væri komið að Kínverjum. Bandaríski fræðimaðurinn svaraði: Jú, endilega. Nú skuluð þið gera það sem þið viljið. Þið getið fengið að gera það í fimm ár. Gefið okkur bara samkeppnisforskot til að finna upp alla hreinu orkuna og leiðir til þess að menga minna til að byggja upp meiri sjálfbærni og svo komum við til ykkar og seljum ykkur þessa vöru og þjónustu. Ef þið viljið fá tíu ára forskot, endilega, þá verðum við enn betur í stakk búnir til að selja ykkur það sem heimurinn er að kalla eftir. Farið bara og mengið og mengið og við munum svo koma og selja ykkur vöruna sem þarf til að lifa af á 21. öldinni.

Mér finnst þessi dæmisaga sýna vel að auknar kröfur í umhverfisvernd á ekki að líta á sem hamlandi eða íþyngjandi fyrir atvinnulífið. Í auknum kröfum um sjálfbærni felast nefnilega gríðarlegir möguleikar, þá sérstaklega fyrir land eins og Ísland.

Það má segja að mikilvægustu fyrirtækin á Íslandi séu þau sem ná árangri á erlendum mörkuðum eða hafa möguleika til þess, þau færa verðmæti inn í landið. Í tilvikum margra útflutningsfyrirtækja byggja þau sérstöðu sína að einhverju leyti á þeirri staðreynd að þau koma frá Íslandi. Þá skiptir engu hvort fyrirtækin flytja út fisk, vatn, snyrtivörur eða annað, þau nýta sér ímynd landsins, þ.e. hreinleika og sérstaka náttúru, til að skapa sér verðmæti og búa sér til samkeppnisforskot á erlendum mörkuðum.

Erlendar rannsóknir styðja þetta vel en þær hafa sýnt fram á náin tengsl upprunalands vöru og viðhorf viðskiptavinar til vörunnar. Við getum nefnt fyrirtæki eins og Icelandair, Iceland Seafood, Iceland glacier water, 66° norður, Farmers market – Iceland, Icelandic. Kannski eru bestu dæmin um þetta nána samband þegar erlend fyrirtæki koma til landsins og koma af stað framleiðslu hér á landi og nýta sér styrk landsins til að markaðssetja vöruna á erlendum mörkuðum. Hægt er að nefna dæmi um vodka sem framleitt er í Borgarnesi. Drykkurinn er framleiddur þar og er uppruni hans frá Íslandi nýttur sem útgangspunktur í markaðssetningu. Þannig er drykknum mörkuð sérstaða á alþjóðlegum mörkuðum með uppruna sínum frá Borgarnesi. Hið alþjóðlega fyrirtæki W. Grant frá Skotlandi nýtir sér norðurljósin, tónlistina, orðsporið, vatnið, hraunið og sérstaka menningu til að skapa sér verðmæti á erlendum mörkuðum. Annað dæmi er hægt að taka. Nýlega greindu þrír bandarískir athafnamenn frá því að þeir í samstarfi við bruggverksmiðju á Akureyri væru að kynna nýjan íslenskan bjór sem ætlaður væri til útflutnings. Það er stefna fyrirtækisins að markaðssetja bjórinn sem hágæðabjór og til þess hyggjast þeir, með leyfi forseta:

„… nýta sér ímynd landsins við markaðssetninguna og segja að ólíkt flestum öðrum bjórtegundum þurfi ekki að teygja sannleikann til að kenna „Einstök“ [bjórinn] við hreinleika og fegurð.“

Frá þessu greinir í Morgunblaðinu nú í september.

Þessi dæmi sýna glögglega það virði sem felst í ímynd landsins og svo virðist sem verðmæti þessarar ímyndar muni bara aukast er fram líða stundir. Sterk ímynd náttúru og hreinleika getur þannig fært íslenskum og erlendum fyrirtækjum á Íslandi mikil verðmæti á erlendum mörkuðum. Að mínu mati, virðulegi forseti, sýna þessi nánu tengsl ímyndar landsins og ímyndar fyrirtækjanna að hagsmunir náttúruverndar og viðskipta fara saman. Þetta samband er í raun og veru veigamikill þáttur í grænum vexti sem margar þjóðir heims horfa nú um stundir til sem helsta vaxtarbrodds efnahagslífsins að lokinni kreppu.

Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni að fá að taka til máls á Alþingi og fylgja úr hlaði starfi nefndar sem kynnir leiðir til að styrkja grænan hagvöxt á Íslandi.

Ég tel, virðulegi forseti, að ef við bregðumst ekki brátt við á sviði umhverfisverndar muni það hafa efnahagsleg áhrif fyrir íbúa jarðar á næstu árum og áratugum. Við Íslendingar skulum horfa til þess að til skemmri tíma gefast mikil tækifæri á sviði umhverfismála. Verndun umhverfisins getur orðið uppspretta sóknar og vaxtar í átt til velmegunar og hagsældar. Grænn vöxtur getur þannig gegnt veigamiklu hlutverki við endurreisn íslensks atvinnulífs til skemmri tíma og skapað grundvöll fyrir velmegun og gott mannlíf til lengri tíma. Ljóst er að stór hluti hins vestræna heims er smátt og smátt að vakna til vitundar um mikilvægi umhverfisverndar. Nú er það undir hverjum og einum að bregðast við.

Ísland hefur ímynd hreinleika og óspilltrar náttúru og með aukinni vitund um stöðu umhverfismála á heimsvísu eykst sífellt virði þeirrar ímyndar. Þannig erum við Íslendingar í raun og veru í óskastöðu í samkeppnisumhverfi framtíðar. Hjá öðrum þjóðum eru auknar kröfur um náttúruvernd, minni mengun og bætta umgengni næsta óleysanlegar áskoranir og gríðarlega kostnaðarsamar en fyrir Ísland eru þessar áskoranir hins vegar tækifæri til að auka lífsgæði og velmegun til lengri tíma litið. Til dæmis er stærsti hluti þeirrar orku sem Íslendingar og fyrirtæki þeirra nota endurnýjanleg en orkan er yfirleitt stærsti þröskuldur þjóða og fyrirtækja á leið þeirra til sjálfbærni. Þannig er miklu auðveldara fyrir Ísland, íslensk fyrirtæki og íslenska framleiðslu að geta stært sig af sjálfbærni og þannig stuðlað að verndun umhverfisins.

Virðulegi forseti. Það má ljóst vera að takist þjóðum vel upp við breytingar í átt til sjálfbærni og verndunar umhverfis getur það fært þeim og fyrirtækjum þeirra mikið samkeppnisforskot á erlendum mörkuðum. Þannig geta þjóðir sem setja umhverfismál á oddinn fært fyrirtækjum sínum forskot í harðri samkeppni. Ímynd hreinleika, náttúruverndar og sjálfbærni getur fært fyrirtækjum möguleika til virðisaukningar.

Það er ærið verkefni að setja sér strangari viðmið í umhverfisvernd og þeim áherslum verður mætt með mótspyrnu. Allir vilja hagvöxt en enginn vill breytingar. Það eru til öfl sem hafa það gott í núverandi kerfi og munu berjast gegn nýjum vinnubrögðum og áherslum á þessu sviði. Nú þarf að takast á við þau öfl því að framþróun verður ekki án einhverra breytinga. Núverandi kerfi er í raun og veru gjaldþrota og til að leggja okkar af mörkum er mikilvægt að við lítum á verkefnið fram undan jákvæðum augum, við þurfum hvort sem er að takast á við það fyrr eða síðar og því fyrr sem við byrjum þeim mun ódýrara mun það reynast.

Virðulegi forseti. Undir lokin vil ég leggja áherslu á að umhverfismál og atvinnumál eru ekki andstæðir pólar í íslensku eða alþjóðlegu samhengi. Þau voru það kannski í gömlu atvinnupólitíkinni en ekki í nýja hagkerfinu, í hinum nýja veruleika. Umhverfismál eru í raun og veru mikilvægust fyrir atvinnumál. Ísland á að marka sér stefnu í umhverfismálum sem gerir náttúru landsins og umhverfisvernd að grundvallarþætti í atvinnuuppbyggingu. Það eru margar þjóðir sem vilja vera í fremstu röð á sviði umhverfismála en fáar þeirra eru í jafngóðri stöðu og við.