Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 15:03:42 (726)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi. Í þeirri tillögu er mjög margt skynsamlegt. Reyndar finnst mér sumt af því byggja fullmikið á áætlunum og greiningu og ætlun um þetta og hitt og að öll ráðuneyti og ríkisstofnanir, til dæmis í 8. lið, innleiði vistvæn innkaup í samræmi við stefnu um vistvæn innkaup ríkisins. Þetta er allt einhvern veginn stefnumótun og áætlanagerð eða eitthvað slíkt, en ekki gert nægilega raunhæft að því er mér finnst.

Úti í Evrópu hefur verið komið á fót markaði með losunarheimildir. Ekki er minnst á það í þessum punktum. Reyndar er lauslega minnst á það á síðu 29 að þessi verslun sé komin í gang. Mér finnst mjög brýnt að þessari verslun sé komið á fót hér á Íslandi nú þegar. Um leið og menn þyrftu að borga fyrir mengun og fengju borgað fyrir eitthvað sem ynni gegn mengun er þar kominn hagrænn hvati sem byggist á markaðskerfi og hefur að mínu mati langmest áhrif til að stýra atvinnulífinu í átt að réttri lausn. Hér er mjög víða getið um það að ef fyrirtæki fari að vinna með meiri umhverfisvernd í huga leiði það oft til meiri hagkvæmni í rekstri. Einmitt slíkur markaður með koltvísýringslosun mundi hvetja menn enn frekar í þá átt að fara inn á þá braut. Tökum sem dæmi skip sem brennir svartolíu og þarf mikið af henni og mengar mikið við veiðar, ef kaupa þyrfti mengunarlosun á markaði er viðbúið að menn færu að hugleiða einhverjar aðrar lausnir sem menga ekki eins mikið og kaupa lífdísil eða eitthvað slíkt, ég held að slíkur hvati sé miklu sterkari en margt annað. Það að ganga til baka með það að ræsa fram mýrar, sem er líka talið vinna gegn koltvísýringslosun, og ræktun skóga og annars slíks — menn gætu fengið greitt á slíkum markaði fyrir þá starfsemi. Ég mundi vilja að í meðförum nefndarinnar, sem fær þessa þingsályktunartillögu til umfjöllunar, yrði bætt inn lið sem fjalli um að tekin verði upp verslun með losunarheimildir sem allra fyrst. Þetta er komið í gagnið í mörgum löndum í Evrópu.

Svo er það það sem ég nefndi í andsvörum hér áðan, þ.e. að menn mega ekki líta á mengun staðbundið. Mengunin er á heimsvísu, koldíoxíðlosun er til dæmis á heimsvísu. Ef framleiða þarf ál eiga menn ekki að segja að það valdi koldíoxíðlosun á Íslandi. Það veldur vissulega koldíoxíðlosun á Íslandi, það gerir það hvar sem það er framleitt í heiminum, bara álverið eitt sér — fyrir utan það að íslensku álverin hafa náð mjög góðum árangri í að minnka þessa koldíoxíðlosun. En raforkan sem er nauðsynleg til að rafgreina ál — það hafa ekki fundist aðrar aðferðir til að framleiða ál en með rafgreiningu. Og það þarf gífurlega raforku og í flestum löndum heims, og alls staðar sem vöxturinn er, er hún því miður framleidd með brennslu gass, kola eða olíu. Það veldur gífurlegri koldíoxíðmengun, fyrir utan að það eyðir þessum lífrænu efnum sem hugsanlega verða aðalbúbót mannkynsins seinna meir, að eiga olíu, kol og gas til að gera annað við það en kveikja í því og brenna það.

Ég fer ekkert ofan af því að það er allt að því skylda Íslendinga að virkja eins mikið og hratt og hægt er. Ef á, sem er á rammaáætlun og sátt er um að sé virkjuð, er virkjuð núna, í gagnaver, álframleiðslu, kísilflögugerð eða hvað það nú er, verður sú vara eða þjónusta ekki framleidd annars staðar með því að brenna kol og olíu. Það vill nú svo til með vatnsföllin að sú orka kemur aldrei aftur. Orkan sem er að steypast fram af bjargbrúninni í formi foss kemur aldrei aftur. Ef sú orka getur orðið til þess að mannkynið sleppir því að brenna þessum lífrænu efnum, er það mjög vel. Við getum ekki litið á Ísland og sagt að álverin mengi hérna, það verður að líta á allan ferilinn. Ál er ekki framleitt nema með raforku. Það þarf að líta á hvernig raforkan er framleidd. Mér finnst það vera allt að því — ég veit ekki hvað ég á að kalla það — barnalegt, ég vil þó kannski ekki nota það orð, að líta eingöngu á mengunina frá álverunum hér á Íslandi og gleyma því meðvitað að til þess að framleiða ál þarf raforku.

Auðvitað mundi koldíoxíðmarkaður leysa þessi mál strax, frú forseti. Ef koldíoxíðmarkaður væri um allan heim yrði svo dýrt að framleiða ál í Kína og Sádi-Arabíu og víðar að það mundi margborga sig að framleiða ál á Íslandi. Álið sem hefði verið framleitt í álverinu á Bakka verður framleitt í Sádi-Arabíu. Mér heyrist að hugað verði að því að fara þangað með álver. Hvernig skyldu nú raforkan vera framleidd í Sádi-Arabíu? Þeir hafa ekki mikið af vatnsföllum og ekki hafa þeir heita hveri; þeir hafa gas og olíu. Það er einmitt ætlunin að kveikja í þeim lífrænu efnum til að framleiða rafmagn og við þann bruna, sem er ekkert mjög skynsamleg orkunýting, verður til óhemjumagn af koldíoxíði, tólf sinnum meiri mengun af því að framleiða eitt kíló af áli í Sádi-Arabíu en hér á Íslandi. Það er því mjög neikvæð þróun að álverið skuli vera flutt frá Bakka, þar sem orkan er framleidd með mjög vistvænum hætti, yfir til lands þar sem orkan er framleidd með brennslu lífrænna efna sem mynda gífurlega koldíoxíðmengun. Við verðum að hugsa þetta hnattrænt. Koldíoxíðmengun í Sádi-Arabíu eða Kína, eða hvar sem það er, er hnattræn mengun sem varðar okkur öll. Menn geta ekki hugsað svona staðbundið eins og Ísland sé eitt í heiminum og restin af heiminum sé á einhverjum allt öðrum hnetti.