Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 15:36:07 (729)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[15:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá mig knúinn til að kveðja mér hljóðs til að ræða þingsályktunartillögu framsóknarmanna um sókn í atvinnumálum. Ég vil í fyrsta lagi óska framsóknarmönnum og flutningsmanni, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, hjartanlega til hamingju með þær tillögur sem hér eru fram komnar. Við lestur þessara tillagna er óhætt að segja að mikill samhljómur er með þeirri nálgun sem ég mundi vilja hafa í atvinnumálum og þeim hugmyndum sem eru lagðar til grundvallar sóknar. Ég vildi því nýta tækifærið til að koma upp og óska Framsóknarflokki til hamingju.

Vissulega mundi maður kannski orða sumar tillögurnar öðruvísi og leggja aðrar áherslur í einstaka atriðum en heilt yfir vil ég taka undir það sem hér kemur fram. Margt sem hér er talað um hefur nú þegar verið gert af ríkisstjórninni eða er í ferli. Ég staldra við þrjú, fjögur atriði og þá sérstaklega í köflunum um nýsköpun og hugverkaiðnað. Þar er rætt um að einstaklingar eigi að njóta skattafsláttar vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og verkefnum og í sjóðum sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta er góð hugmynd og vonandi mun fjármálaráðuneytið koma á þessu þingári með tillögur í þessum efnum. Um það hef ég t.d. rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Hér eru góðar hugmyndir á sviði hugverkaiðnaðar, góðar hugmyndir um sókn í kvikmyndagerð og tónlist og góðar hugmyndir kynntar um sókn á sviði ferðaþjónustu.

Ég þakka Framsóknarflokknum fyrir að leggja í púkkið hugmyndir til að sækja fram í íslensku atvinnulífi.