Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 16:04:21 (739)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að fagna fram komnum tillögum Framsóknarflokksins um eflingu atvinnulífsins. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég tel hann pólitíkinni til hnjóðs, og kannski einn mesti veikleiki hennar nú um stundir, sá siður manna að rífa niður uppbyggilegar hugmyndir ef þær koma frá öðrum flokki en manns eigin. Mér finnst það til marks um þröngsýni og allt að því barnaskap að tala þannig um stjórnmál að allt sem frá manns eigin flokki kemur sé yfir gagnrýni hafið og allt sem frá öðrum kemur sé í það minnsta ömurlegt. Slík stjórnmálaumræða heldur okkur ofan í skotgröfunum, hún kemur okkur ekki úr stað. Nú þurfum við að komast úr stað og við þurfum að beita til þess öllum ráðum.

Framsóknarflokkurinn leggur að mínu viti fram mjög fjölbreytt plagg og er það vel, fjölbreytni er að mínu mati lykilatriði í atvinnuuppbyggingu á Íslandi til frambúðar. Við höfum því miður búið við tiltölulega einsleitt atvinnulíf hringinn í kringum landið, stundum veðjað á einhæfar lausnir til frambúðar. Ég tel að við þurfum sem þjóð að skoða allar leiðir til að auka fjölbreytni starfa sem víðast á landinu báðum kynjum til heilla og allri menntun til heilla. Við getum ekki horft á bóknámsgreinarnar sem öðrum æðri og við getum ekki hugsað um karlastörf frekar en kvennastörf. Við þurfum að hugsa um allar leiðir í atvinnumálum til framdráttar þjóðinni í þessum mikilvæga málaflokki sem vel að merkja heldur ekki bara uppi lífskjörum í landinu heldur líka velferðinni.

Við lestur þessara tillagna verður ekki annað sagt en þær séu í grunninn almennar og kannski sumar hverjar ekki útfærðar til fulls og ef til vill er erfitt að biðja um það í öllum smáatriðum. Þetta eru hins vegar fjölbreyttar tillögur og eru til marks um að mikil vinna hefur verið lögð í þær og þær eru útskýrðar í mikilli greinargerð sem fylgir tillögusmíðinni.

Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir mikilli vá í atvinnumálum af augljósum ástæðum. Við eyddum um efni fram, ekki einvörðungu einstaklingar heldur ekki síður fjármálafyrirtæki og fyrirtæki almennt í landinu. Og það á við um allar greinar. Einn helsti veikleiki íslensks atvinnulífs er afleiðing af oflánastefnu þar sem fyrirtækjum var lánað langt umfram getu jafnvel í verkefni sem voru alls óskyld starfsemi þeirra og nægir þar að nefna sjávarútveginn. Við þurfum því að taka til í þeim ranni fljótt og vel, eins og kemur fram í tillögum framsóknarmanna, og við þurfum að sækja fram á sem flestum sviðum, efla þau fyrirtæki sem fyrir eru en laða til landsins erlent fjármagn til að auka á fjölbreytnina í þessum ranni.

Ég ætla að staldra við gagnrýni framsóknarmanna á þær skattalagabreytingar sem gerðar hafa verið hér og hafa ef til vill þvælst fyrir uppbyggingu fyrirtækja á undanförnum vikum og mánuðum. Ég hef verið þeirrar skoðunar, og er það enn þá, það mun ekki breytast, að við höfum, í þeim erfiðleikum sem við höfum verið í, þurft að grípa til allra leiða sem færar eru til að laga samfélagið að þeim efnum sem það ræður við. Við höfum þurft að leggja á meiri gjöld og skatta. Við höfum þurft að skera niður í ríkisbúskapnum og við þurfum jafnframt að brekka skattstofnana með auknum tekjumöguleikum, auknum hagvexti. Þessar þrjár leiðir eru þær sem eru í boði og ég tel það frekar billegan málflutning að segja sem svo að við þær fordæmalausu aðstæður sem við búum við í dag hefðum við getað gripið til aðeins einnar af þessum þremur leiðum. Ég held að ástandið hafi einfaldlega verið þannig að við höfum þurft að grípa til allra þessara leiða; að ná inn auknum tekjum í gegnum skattkerfið, spara með niðurskurði í ríkisútgjöldum og jafnframt breikka skattstofna með auknum hagvexti.

Þessar tillögur leiða vonandi til aukins hagvaxtar og það er það sem við þurfum á að halda. Ég tel að fjögur efni séu mikilvægust í umræðum um atvinnumál nú um stundir, þ.e. að auka kaupmátt, auka fjölbreytni í atvinnulífinu, auka menntun — og ég tek sérstaklega undir með framsóknarmönnum, í 2. lið tillagnanna um vinnumarkaðsaðgerðir, að komið verði til móts við þarfir einstaklinga sem ekki hafa fundið sig í framhalds- og háskólum og gerð verði úttekt á þörfum atvinnulífsins og atvinnulausra gagnvart námi og námsframboði. Þar erum við aftarlega á merinni. Síðast en ekki síst er fjórði þátturinn sá að stöðugleiki verði aukinn.

Ég tel reyndar að óvissan í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja stafi ekki fyrst og síðast af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á skattalagaumhverfinu. Ég tel að óvissa í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, sem hefur verið nefndur í þessari umræðu, stafi ekki af þeim breytingum sem boðaðar eru í þeim málaflokki. Þær breytingar eru í átt til stöðugleika vel inn í framtíðina. Þar er verið að bjóða mönnum aðgang að auðlindum til 20, hugsanlega 30 ára, vissulega hefur verið talað um 15 eða 18 ár en ég tel að komist verði að annarri niðurstöðu.

Óvissan í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja er fyrst og síðast sveiflan á gjaldmiðlinum sem hefur verið á þann veg að menn hafa ekki getað skipulagt sig fram í tímann. Ísland hefur sveiflast í þessum efnum mun meira en aðrar þjóðir og þegar rætt er við forstöðumenn fyrirtækja, meðalstórra, lítilla og þeirra stærstu sem eru við lýði á Íslandi, er það niðurstaða langflestra að óstöðugleikinn í gjaldeyrismálum hafi leikið þau einna verst og kannski fælt þau í burt sem farið hafa úr landi, þau hafa flúið í stöðugleikann. Gleymum því ekki að menn tala oft um að kosturinn við krónuna á tímum sem þessum felist í því að sveigjanleikinn sé ærinn. En sá sveigjanleiki er hins vegar á þann veg að það er alltaf einhver sem tapar á honum, jafnframt því sem einhver græðir á honum. Menn ræða nú um að útflutningsgreinarnar græði á veiku gengi en á móti kemur að heimilin í landinu blæða fyrir það. Það eru alltaf tvær hliðar á því máli. Sveigjanleikinn í gjaldmiðlinum, sem er versta ógnin í íslensku atvinnulífi nú um stundir, leiðir alltaf til þess að einhver tapar. Það er alltaf einhver sem tapa á þeirri rússíbanareið sem núverandi gjaldmiðill er.

Að þessu sögðu vil ég, frú forseti, taka undir mjög mörg atriði í þessu ágæta plaggi sem framsóknarmenn leggja fram til umræðu í dag. Ég fagna því mest að hér er sótt fram í fjölbreytni. Ég tel að það séu kannski mestu möguleikarnir í íslensku atvinnulífi til frambúðar að veðja á fjölbreytni. Ástæða þess að fækkað hefur í byggðarlögum víða um land er einsleitni atvinnulífsins. Þar hefur kalli kvenna í atvinnumálum ekki verið svarað og ekki heldur þeirra sem vilja mennta sig á annan hátt en íslenskt samfélag hefur boðið upp á á undanförnum árum, en þar hefur jafnframt verið um einhæfni að ræða.

Ég gæti nefnt mörg atriði í sambandi við þær tillögur sem hér eru til umfjöllunar, svo sem eins og kvikmyndalistina sem komið er inn á, en ég tek undir að hækka beri endurgreiðsluhlutfall úr 20 í 25%. Þrátt fyrir harðæri í framlögum til kvikmyndagreina hefur endurgreiðsluhlutfallið aldrei verið hærra. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 150 millj. kr. í endurgreiðslur, nú þegar eru þær komnar í um 300 millj. kr., verða væntanlega milli 500 og 600 millj. kr., þannig að sú grein er í mikilli framsókn. Svo á reyndar við um fleiri greinar og þar nefni ég til dæmis landbúnaðinn sem ég held að við ættum að gefa meiri gaum í umræðu á Alþingi. Þar eru gríðarlegir möguleikar og ég held að við ættum að tala um þá grein af meira sjálfstrausti en við höfum þorað að gera úr þessum ágæta ræðustól.