Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 16:21:32 (743)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin er að sjálfsögðu að gera sitt besta. (ÁsmD: Því neita ég ekki.) Auðvitað erum við sem störfum á Alþingi öll að reyna að gera okkar besta. Ég er hins vegar þeirrar gerðar í pólitík minni að ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina alveg eins og ég hef gagnrýnt stjórnarandstöðuna og ég hef hampað stjórnarandstöðunni alveg eins og ég hef hampað mínum eigin flokki, þannig að ég horfi svo sem út fyrir þau landamæri þegar kemur að pólitískri umræðu.

Við eigum að tala á alveg sama hátt um gjaldeyrismálin, frú forseti. Við eigum ekki að hafa það sem trúaratriði að tala gegn evrunni hvenær sem við komum í pontu Alþingis eða hvar sem við komum á mannamót. Evran hlýtur að koma til greina alveg eins og aðrir möguleikar. Við verðum að skoða vel og rækilega inn í framtíðina hvar stöðugleikinn verður í íslenskum þjóðarbúskap og með hvaða hætti við tengjumst öðrum gjaldmiðli. Evran kemur þar til greina. Við megum ekki hafa það sem trúarafstöðu í lífi okkar og pólitík að hún sé galdranornin í leikritinu. Hún er alveg jafnbrúkleg nú um stundir og dollarinn. Þar vil ég nefna að sumir hagfræðingar hafa nefnt að bandarískt hagkerfi sé að niðurlotum komið og tæknilega gjaldþrota (ÁsmD: En evrópska hagkerfið?) þannig að við getum ekki sagt að það séu bara vandræði í evrópsku hagkerfi. Vandræðin í bandarísku hagkerfi eru gríðarleg og sumpart á pari við það sem er að gerast í Evrópu í þeim efnum. Við megum ekki tala um upptöku nýs gjaldmiðils með þeim trúarlega hætti að einn komi ekki til greina og við eigum að skoða aðra kosti. Við eigum að hafa allt uppi á borðinu vegna þess að ég tel að við getum bætt atvinnulífið með pólitískt jákvæðu tali en ekki trúarlega þröngu tali.