Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 16:32:43 (748)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Áður en ég fer að tala um þessar atvinnumálatillögur vil ég ítreka að þetta er mikilvægasti málaflokkurinn sem við ræðum hér á þingi núna, það eru atvinnumálin fyrst og síðast. Hinn stóri málaflokkurinn sem skiptir öllu máli eru skuldamálin og úrlausn skuldamála heimila og fyrirtækja.

Varðandi atvinnumálin vil ég byrja á því að setja upp ákveðið dæmi. Við þurfum að setja þetta í samhengi við það ástand sem við búum við á landinu í dag. Frá því að hrunið varð hafa yfir 7 þús. manns flúið af landi brott. Þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið. Á hverjum degi flytja fimm til tíu manns af landi brott og kostnaður samfélagsins af því er gríðarlega hár.

Í skýrslu sem OECD gaf út á síðasta ári kom fram að íslenskt samfélag, ríkið, sveitarfélögin, er að eyða um 1 millj. kr. á hvern nemanda á hverju námsári. Það þýðir að hver grunnskólagenginn námsmaður kostar samfélagið 15 millj. kr. og hver háskólamenntaður einstaklingur kostar samfélagið um 23 millj. kr. Þetta er útlagður kostnaður við að byggja upp einstaklinga, þetta er fjárfesting. Þetta er fjárfesting, frú forseti, þetta er fjárfesting í mannauði. Ef fimm manns flytja úr landi á hverjum degi erum við að glata um 100 milljónum á hverjum degi. Ef tíu manns flytja úr landi erum við að glata um 150–200 milljónum á hverjum einasta degi.

Ef við setjum þetta í samhengi við atvinnumálin þá er þetta sú upphæð sem við megum eyða á hverjum degi í atvinnuuppbyggingu til að tryggja að fjárfestingin í þessu unga fólki — ungu fólki á mínum aldri sem á að byrja að skapa tekjur — skili sér á næstu áratugum. Það verður gríðarlega erfitt að ná miklu af þessu fólki til baka og þá er það glötuð fjárfesting. Þessir einstaklingar flytja til að mynda til Noregs eftir að við erum búin að eyða í menntunina og fara að skapa hagvöxt og verðmæti í öðru landi. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni og mikilvægt, þegar við skoðum allar þessar tillögur og kostnaðinn við þær, að setja þetta í samhengi.

Við atvinnuuppbyggingu á tímum sem þessum er gríðarlega mikilvægt að ríkisstjórn landsins og Alþingi, og þeir sem eru í forustu fyrir þjóðina, stuðli með beinum og óbeinum aðgerðum að atvinnuuppbyggingu. Þó að Alþingi og stjórnmálamenn séu ekki með puttana í atvinnuuppbyggingunni með beinum hætti í fyrirtækjum og öðru þá skipta aðgerðir ríkisstjórnar og Alþingis miklu máli.

Við getum nefnt nokkur dæmi beint um það hvernig ríkisstjórnin hefur komið að málum og beinlínis unnið gegn atvinnuuppbyggingu. Við getum til að mynda nefnt að við erum að byggja upp stofnana í hafinu miklu meira en eðlilegt getur talist á tímum sem þessum. Hægt væri að auka þorskkvóta um 40–50 þús. tonn, og við værum samt að byggja upp stofnana. Það er eitt dæmi um það hvernig hægt væri að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu með beinum hætti.

Við getum nefnt uppbyggingu í landbúnaði. Hægt væri að stórauka innlenda matvælaframleiðslu með beinum aðgerðum þar sem komið væri að því að efla innlenda framleiðslu, innlenda kornrækt til að mynda, innlenda kjötframleiðslu til útflutnings. Ríkisstjórnin hefur beinlínis, og það sést vel á skrifum ýmissa leigupenna hennar, unnið gegn þessu, hún hefur unnið gegn því að efla matvælaframleiðslu í landinu.

Nefna má mikilvægi þess að liðka fyrir atvinnutækifærum og framkvæmdum á mjög mörgum sviðum. Í þessari tillögu er rakið ýmislegt af slíkum tillögum og hugmyndum. Hvað gerðu Finnar á sínum tíma? Þeir tóku ákvörðun um að finnska ríkið styddi við atvinnuuppbyggingu með beinum fjárframlögum. Það þótti gott, frú forseti, ef tvö til fjögur fyrirtæki af hverjum tíu sem var komið á fót lifðu af. Mörg þessara fyrirtækja eru stórfyrirtæki í dag og er til að mynda hægt að nefna Nokia sem dæmi.

Stjórnmálamenn geta líka með óbeinum hætti stuðlað að aukinni atvinnuuppbyggingu. Þar má til að mynda nefna, eins og komið hefur hér fram, skattumgjörð í kringum atvinnufyrirtæki og hvernig við getum beitt henni til að efla og auka innlenda framleiðslu, efla og auka atvinnustarfsemi og hvetja menn til að sækja fram í atvinnulífinu frekar en hitt.

Það kom fram í ræðum fyrr í dag, hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni og fleirum, að það er ekki jákvætt fyrir innlent atvinnulíf þegar trúin á uppbyggingu þess er ekki meiri en svo að forsætisráðherra þjóðarinnar gengur fram og segir að ekki verði hægt að byggja hér upp atvinnu eða sækja fram fyrr en við göngum í Evrópusambandið. Á sama tíma teiknast upp í fjölmiðlum sú mynd af Evrópusambandinu að það sé algjörlega hagvaxtarlamandi og þar sé allt á niðurleið. Þar sé atvinnuleysið miklu hærra en á Íslandi og mörg stórfyrirtæki séu að flytja starfsemi sína frá Evrópusambandinu. Þá er þetta sú von sem forsætisráðherra þjóðarinnar gefur íslenskum fyrirtækjum og íslenskum heimilum og þeim sem eru að sækja fram í atvinnulífinu.

Það er gríðarlega mikið áhyggjuefni hvernig umræðu hefur verið hagað hvað þetta snertir. En við getum farið út í einstakar tillögur í þessari þingsályktunartillögu, þær eru mýmargar. Mig langar að koma inn á nokkrar þeirra hér en tíminn leyfir ekki að farið sé mjög ítarlega í þær. Til að mynda má nefna landbúnaðinn, eins og ég kom inn á áðan, og ég hygg að hv. þm. Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson muni fara dýpra í það enda er hann einn af forustumönnum bænda og er nú á þingi í tvær vikur sem varaþingmaður. Það er hægt að stórauka innlenda framleiðslu eins og ég kom hér inn á áðan. Það er mjög alvarlegt, frú forseti, þegar umræðurnar í samfélaginu og innan ríkisstjórnarliðsins eru á þá leið að það sé beinlínis af hinu illa þegar við getum kannski aukið framleiðslu á lambakjöti um 10, 15, 20% og allt í útflutning, þá sé talað um það eins og það sé af hinu illa.

Ég vil nefna annað dæmi, sem kom upp á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, þegar umræða varð um það hvort fara ætti í stórfellt átak til að efla og auka innlenda kornrækt. Hægt hefði verið að tífalda innlenda kornrækt og íslensk svínakjötsframleiðsla hefði getað tekið alla þessa kornrækt — það hefði jafnvel verið hægt að tuttugu- eða þrjátíufalda innlenda kornrækt með tilheyrandi aukningu í umsvifum í atvinnulífi í sveitum landsins, í gjaldeyrissparnaði og öðru viðlíka. Þetta var algerlega slegið út af borðinu á sínum tíma og var þetta rætt milli ríkisstjórnarflokkanna og ég hef vitneskju um það vegna þess að ég var þar innan búðar.

Það má nefna sauðfjárræktina. Gríðarlega góðir markaðir eru að opnast í Rússlandi, Asíu og víðar. Við gætum aukið sauðfjárframleiðslu um 30% og ég hygg að sá þingmaður er hér gengur fram hjá, hv. þm. Sigurgeir Sindri, muni koma vel inn á það á eftir.

Í þingsályktunartillögunni eru margar góðar tillögur um ferðaþjónustuna, meðal annars að ráðast í kynningarátak, uppbyggingu ferðamannastaða og leitast við að svara því hvernig við getum aukið tekjurnar af hverjum og einum ferðamanni, hvernig við getum aukið ferðaþjónustuna hér á landi, fjölgað ferðamönnum og eins hvernig við getum aukið tekjurnar.

Einnig má nefna endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Ég held að úti á landi sé það gríðarlega mikilvægt, þegar kemur að því að byggja upp atvinnuna á nýjan leik, að við setjum í gang vinnu við að endurskipuleggja sparisjóðakerfið og þá samvinnuhugsjón sem þar bjó að baki. Sparisjóðirnir voru og eru, þeir sem enn eru starfandi, í miklum tengslum við nærumhverfi sitt og (Forseti hringir.) fáar stofnanir stuðluðu að meiri uppbyggingu á sínum tíma.

Ég hafði ætlað að halda enn lengri ræðu, frú forseti, en þar sem (Forseti hringir.) tíminn er búinn mun ég velta því fyrir mér að setja mig aftur á mælendaskrá.