Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 16:43:23 (750)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:43]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að koma hér í dag og ræða uppbyggileg mál eins og sókn í atvinnumálum. Sú tillaga til þingsályktunar sem er hér flutt af öllum þingflokki framsóknarmanna er mjög gott innlegg í umræðuna um atvinnumál nú um stundir. Það er ástæða til þess að fagna viðbrögðum þeirra stjórnarliða sem hér töluðu í dag við þessum ágætu tillögum. Mig langar til að ræða aðeins nánar um landbúnaðarmál og sérstaklega kannski í ljósi ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams áðan þar sem hann taldi að framsóknarmenn hefðu ekki nógu víðsýna og öfluga stefnu í landbúnaðarmálum og þyrfti að skoða hana upp á nýtt.

Það er svolítið gaman að segja frá því að frá árinu 2008, frá því um og fyrir hrun, hefur störfum í landbúnaði fjölgað um tæplega 10%. 400 fleiri vinna í íslenskum landbúnaði í dag en gerðu á árinu 2008. Má kannski segja sem svo að með þeirri breytingu sem gerð var á starfsskilyrðum búvörusamninga í apríl 2009, sem var undirritaður af þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem einnig var hæstv. fjármálaráðherra, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, hafi verið tekin ákvörðun um að setja þak á verðtrygginguna. Hefði kannski verið skynsamlegt að hugsa út í það á fleiri vígstöðvum, en með þessum samningi sem undirritaður var í apríl 2009 er smábókun í lokin sem er áhugavert að rifja upp. Vil ég, með leyfi forseta, vitna í hana:

„Samningsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu mjólkurframleiðenda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin býr nú við. Þá eru samningsaðilar sammála um að hefja vinnu við endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins og búa hann undir breytingar á komandi árum.“

Það er áhugavert að minna á þetta í ljósi þess að umræðuhefðin í þjóðfélaginu að undanförnu hefur verið þannig að kerfið, sem kallað er, þetta landbúnaðarkerfi, sé algjörlega ómögulegt og nauðsynlegt að skoða það. Ég held að forsvarsmenn bænda, hvort sem eru Bændasamtök Íslands eða Landssamtök sauðfjárbænda, séu í öllu falli mjög áhugasamir um að skoða þetta kerfi sem menn vilja kalla, þessa íslensku landbúnaðarstefnu, og fara yfir hana. Það er bókun í þessum samningi um að þessi vinna skuli fara fram og það er ágætt fyrir hv. þm. Magnús Orra Schram að skoða í eigin ranni hvort þá sé ekki rétt að hefja vinnu við endurskoðun á íslensku landbúnaðarstefnunni því að bændur eru meira en til í það.

Það er svo áhugavert að skoða hinn hluta bókunarinnar við þennan samning þar sem talað er um könnun á skuldastöðu bænda. Það má kannski segja í skýrslu eftirlitsnefndar um skuldaaðlögun sem nýlega er komin út að þar er gerð þó nokkur grein fyrir skuldastöðu bænda sem er mjög áhugaverð lesning en hins vegar hefur ekkert verið gert í að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þessum fjármálaþrengingum. Þó að hv. þingmenn Samfylkingarinnar tali mjög mikið um að það þurfi nauðsynlega að breyta ýmsu innan landbúnaðarins væri gaman að þeir stæðu að minnsta kosti við þá samninga sem þeir hafa gengist undir.

Í ljósi orða hv. þingmanns langar mig að skoða aðeins hvað stendur í þessari stefnu framsóknarmanna um landbúnaðarmál. Það er áhugavert að benda á að í þessu plaggi er viðauki sem er skýrsla atvinnumálanefndar Framsóknarflokksins. Þar er fjallað um tækifærin í íslenskum landbúnaði. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er að hluta til búinn að fara yfir þetta. Við eigum mikið af sóknarfærum. Það er mjög aukin eftirspurn eftir upprunamerktum matvælum, Beint frá býli og öðru slíku. Það er mikilvægur vaxtarsproti sem hægt er að tengja við ferðaþjónustuna í landinu. Við eigum mjög mikla möguleika og það er talið raunhæft að þrefalda kornrækt á Íslandi. Við eigum sóknarfæri í því að nýta metan sem eldsneyti. Við eigum sóknarfæri í því að rækta repju til eldsneytisnotkunar, lífdísil. Við eigum mikla möguleika á að selja íslenskt lambakjöt sem gæðavöru á góðu verði á erlendum mörkuðum. Það er einkennilegt í þeirri umræðuhefð sem er á Íslandi og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason kallaði leigupenna ríkisstjórnarinnar, þá sem hafa mjög mikið haft skoðun á íslensku landbúnaðarkerfi, og sauðfjárræktinni sérstaklega, að allt í einu sé orðið slæmt að flytja út lambakjöt. Áður fyrr töluðu menn um kjötfjöll og offramleiðslu á kjöti. Nú þegar menn eru búnir að ná tökum á því og ná upp góðum mörkuðum erlendis fyrir íslenskt lambakjöt á mjög góðu verði sem skapar um 3 milljarða í gjaldeyristekjur, svo ekki sé talað um allan gjaldeyrissparnaðinn sem felst í því að neyta innlendra matvæla en ekki erlendra, er allt í einu orðið slæmt að flytja út íslenskt lambakjöt. Menn færa fyrir því þau rök að greiddur sé styrkur út á það, jafnvel útflutningsbætur og annað slíkt og menn vilja meina að menn noti ríkisstuðning sem fastur er á fjárlögum, föst krónutala, til að greiða niður útflutning á lambakjöti. Staðreyndin er einfaldlega sú að þótt ekki færi gramm af kjöti úr landi væri liðurinn um sauðfjárrækt í fjárlögunum nákvæmlega sá sami. Þetta á ekki við rök að styðjast.

Svo ég haldi áfram með tækifærin í íslenskum landbúnaði eru þau í hinum fjölbreyttustu greinum. Við getum aukið grænmetisframleiðslu hér mjög mikið. Við eigum endurnýtanlegu orku og við eigum að nota bæði rafmagn og heitt vatn til að framleiða grænmeti á Íslandi. Við eigum þar mikil sóknarfæri, en að sjálfsögðu þarf hæstv. ríkisstjórn að skapa þeim sem eru í þeim geira, í grænmetisframleiðslu, skilyrði fyrir henni og bjóða mönnum raforku á viðráðanlegu verði, sambærilegu við þá sem fá rafmagnið og heita vatnið á besta verðinu.

Við höfum einnig mjög mikil tækifæri í hestamennsku og ræktun íslenska hestsins. Staðreyndin er sú að 2/3 hlutar þess stofns sem til er af íslenskum hesti í heiminum eru erlendis þannig að það eru mjög mikil sóknarfæri í ferðaþjónustu, sérstaklega að menn heimsæki upprunaland íslenska hestsins. Svo eru mörg tækifæri í fiskeldi sem er mjög vaxandi grein. Menn eru farnir að nýta jarðvarma til að framleiða tegundir sem aldrei áður hafa verið framleiddar á Íslandi í fiskeldi. Það er mjög jákvætt.

Við eigum enn fremur tækifæri í skógrækt, bæði í timbur- og kurlframleiðslu. Svo er mjög áhugavert að rifja upp að minkaeldi á Íslandi er arðbært. Minkaskinn eru mjög arðbær um þessar stundir og vert að auka framleiðsluna. Verðið er í sögulegu hámarki og Ísland talið henta mjög vel sem land til framleiðslunnar. Eins og kemur fram í tillögum framsóknarmanna er Íslandsstofa meðal annars hvött til að vekja athygli á þeim tækifærum sem fólgin eru í loðdýrarækt hér á landi.

Ég ætla að láta þetta duga í bili, en hefði viljað eiga orðastað við hv. þm. Magnús Orra Schram. Við verðum að láta það bíða betri tíma.