Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 17:03:17 (753)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Í ljósi þess að ég komst því miður ekki yfir allt það sem ég vildi hafa sagt um þá tillögu sem við ræðum hér kvaddi ég mér aftur hljóðs. Mig langar að ræða 9. og 10. kafla, sem eru orkumál og orkuskipti annars vegar og uppbygging í mannaflsfrekum iðnaði hins.

Við höfum verið að fá fréttir af því að bakslag hafi orðið, meðal annars í Þingeyjarsýslum, í atvinnuuppbyggingu í þessum iðnaði. Á grundvelli þess að við viljum hafa fjölbreytilegt en um leið öflugt atvinnulíf tel ég að menn verði að horfa til nýtingar á innlendum orkugjöfum sem eru umhverfisvænir ef við horfum á það á alþjóðavísu. Við leggjum mikla áherslu á það í Framsóknarflokknum að við höldum áfram á þeirri leið að virkja auðlindir okkar með skynsemi að leiðarljósi og að teknu tilliti til náttúrunnar. Í aðdraganda síðasta flokksþings lögðum við til að við mundum leitast eftir því að klára rammaáætlun um forgangsröðun og nýtingu virkjunarkosta á síðasta vorþingi. Það gekk því miður ekki en sú áætlunargerð er forsenda þess að menn haldi áfram að nýta orkuauðlindirnar til framtíðar litið.

Nú er svo komið að sú rammaáætlun er í einhverju reiptogi á milli umhverfis- og iðnaðarráðuneytis og við vitum ekkert hvenær hún kemur fram. Það hefur verið sagt að hún komi fram fyrir áramót sem þýðir á mæltu máli að rammaáætlun verður ekki afgreidd fyrr en einhvern tímann á næsta ári sem hamlar þá fjárfestingum og rannsóknum í þessum mikilvæga geira atvinnulífsins. Ég tel því að núverandi stjórnvöld hafi einfaldlega ekki lagt nægilega mikið af mörkum til að vinna að uppbyggingu í orkumálum.

Mig langar líka að nefna olíuleit og það skattumhverfi sem stjórnvöld búa þeim aðilum sem vilja leita að olíu, til að mynda á landgrunninu úti fyrir norðausturhluta landsins. Það kom í ljós í fyrra að sú lagaumgjörð sem þá var gerð í kringum olíuleitina var einfaldlega á þann veg að þeir aðilar sem höfðu lýst áhuga á að fara í að leita að olíuauðlindum úti fyrir norðausturhorni landsins hættu við vegna þess að skattalegt umhverfi var óhagstætt. Sem betur fer var afgreidd í efnahags- og skattanefnd, eins og nefndin hét fyrir breytingar á þingsköpum, ný löggjöf um að gera þá umgjörð hagstæðari en hún var. Vonandi verður nú settur fullur kraftur í að rannsaka það svæði og ef vel gengur farið að vinna verðmæti úr þeirri náttúruauðlind sem þar um ræðir. Við leggjum mikla áherslu á það í þessum tillögum að þessum málaflokki sé ítarlega sinnt.

Varðandi iðnaðaruppbyggingu og beina erlenda fjárfestingu hér á landi þarf líka að endurskoða lagaumhverfið, skoða ívilnanir vegna beinna erlendra fjárfestinga og öll þessi leyfisveitingaferli sem eru í gangi innan stjórnsýslunnar sem er því miður oft mjög hæg. Oft hefur maður það á tilfinningunni að það sé meðvitað að ráðuneyti svari hlutum seint og illa. Við höfum til að mynda, af því ég er nú að ræða hér um orkumál, sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er ekki hrifin af að nýta í þeim mæli sem margir aðrir stjórnmálaflokkar vilja gera — reyndar dálítið merkilegt að sá flokkur vill nýta olíu úti fyrir norðausturhorni landsins sem mengar margfalt meira en þær endurnýjanlegu orkuauðlindir sem við mörg hver viljum virkja hér inni á landinu, en það er önnur saga og efni í aðra umræðu.

Þegar við ræðum um atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, sem við höfum barist fyrir svo árum skiptir, á fundum koma fulltrúar frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og segja: Við viljum uppbyggingu í einhverju öðru, við viljum eitthvað annað. Hvað gerist svo þegar eitthvað annað gerist, eins og uppbygging umhverfisvænnar ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum? Hingað kemur maður og lýsir yfir vilja til að byggja með metnaðarfullum hætti upp ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum, með hóteli, með golfvöllum og fleira mætti nefna; hugmynd sem ég hélt að menn ættu að taka fagnandi; hugmynd sem mundi ekki einungis stórefla ferðaþjónustu á norðausturhorni landsins heldur á landinu öllu. Þá segja Vinstri grænir: Stopp. Hver er niðurstaðan? Ef þessi ágæti Kínverji hefði verið búsettur í Evrópusambandinu hefði hann mátt kaupa þess jörð, en af því hann er ekki í Evrópusambandinu þarf hann að fá sérstakt leyfi hjá hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni. Hann sendir slíka beiðni inn þar sem hann lýsir uppbyggingaráformum sínum. Það tók rúmar fimm vikur að svara því erindi. Reyndar sagði ráðherrann að það væri ekkert forgangsatriði í ráðuneyti sínu að svara því, enda tók það rúmar fimm vikur. Og hvert var svarið? Fá frekari upplýsingar.

Ef ekki er með grímulausum hætti verið að reyna að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu af þessu tagi í Þingeyjarsýslum — grímulausara verður það ekki, og þá er ósköp eðlilegt að fólk á þessu svæði hugsi með sér: Hvað vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð þegar kemur að atvinnuuppbyggingu? Það er ósköp eðlilegt í þessari umræðu að við veltum því fyrir okkur. Það getur verið að svarið sé á þann veg að þau vilji bara eitthvað annað, en valmöguleikunum fækkar óhjákvæmilega eftir því sem á líður. Það væri nú ágætt að heyra viðhorf þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnvart þeirri stjórnsýslu sem á sér stað í innanríkisráðuneytinu þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu á þessu svæði.

Ég vil líka vekja athygli á því, af því ég er farinn að ræða hér um ferðaþjónustu, að við leggjum til að tekjur ríkisins, sem eiga að renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, renni til uppbyggingar innan greinarinnar þannig að við bætum aðgengi að helstu náttúruperlum landsins svo að sómi sé að. Það er einfaldlega þannig vítt og breitt um landið að dýrmætustu perlurnar okkar eru að drabbast niður vegna þess að aðstaðan er slík að ágangur ferðamanna er farinn að valda skemmdum á mjög mikilvægum stöðum. Það er því mikilvægt að fjármunir fari í þetta til að við getum tekið á móti öllum þeim ferðamönnum sem koma hingað til lands.

Ég sé að hv. þm. Þór Saari er kominn hér í salinn, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sem hefur verið mjög áberandi í umræðunni um að ræða um uppbyggingu á einhverju öðru. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður tekur undir með mér í því að það slen gagnvart uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum, sem ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér vel, er algjörlega óviðunandi. Loksins þegar kemur að uppbyggingu á umhverfisvænum iðnaði eins og ferðaþjónustunni, segja þeir sem vilja gera eitthvað annað að ekki megi heldur fara í það. (ÞSa: Hvað viltu selja mikið af landinu?) — Nú kemur hv. þingmaður með spurningu sem kallar á langa umræðu, en ég hvet hv. þingmann til að vinna að þessu ágæta máli, sem við höfum lagt fram, framsóknarmenn, um sókn í atvinnumálum, í nefndum Alþingis. Ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér það.

Hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem felur í sér bjartsýni og dug til að fara að fjölga störfum í þessu samfélagi, vegna þess að á undangengnum þremur árum höfum við verið að spóla í sama hjólfarinu mánuð eftir mánuð. Við höfum því miður horft á fjölmörg tækifæri renna okkur úr greipum á þessu tímabili. Nú er tími til kominn að við náum saman um að sækja fram á fjölmörgum sviðum eins og þessi þingsályktunartillaga mælir fyrir. Ég veit að margir hv. þingmenn hafa sakað Framsóknarflokkinn um að vera eins máls þingflokk þegar kemur að uppbyggingu í atvinnumálum. (Gripið fram í.) Hér eru tugir tillagna sem við leggjum fram til að skapa fjölbreytt atvinnulíf hér á landi svo að auka megi velferð og velmegun á Íslandi á ný, ekki veitir af. Ég treysti á þá hv. þingmenn sem hafa (Forseti hringir.) tekið þátt í umræðunni og eru hér í salnum til að styðja málið.