Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 17:18:58 (757)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er dapurlegt að hv. þingmaður skuli ganga úr sal þegar ég hyggst svara því andsvari sem hann beindi til mín hér áðan, en það hefur ekki tíðkast að standa í djúpum rökræðum um umfangsmikil málefni eins og uppbyggingu í atvinnumálum þjóðarinnar sem er í tugum liða. Ég hefði haldið að hv. þingmaður hefði átt að koma hér upp í formi ræðu en ekki tveggja mínútna langra andsvara til að ræða um þá þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu. (Gripið fram í: Þingsköpin bjóða upp á þetta.)

Hv. þingmaður ákvað að svara því ekki hvort hann mundi standa að því sem varaformaður fjárlaganefndar að ganga á bak þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. iðnaðarráðherra gerði við forsvarsmenn sveitarfélaga í Þingeyjarsýslu um að staðinn yrði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Hvernig lítur fjárlagafrumvarpið út? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Það er hátt í 9% niðurskurður við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Það er einfaldlega ekki hægt að horfa upp á það að á rúmum þremur árum séu framlög til þessarar stofnunar skorin niður um 33%. Við hljótum að ætlast til þess að hv. stjórnarliðar svari þeim fyrirspurnum sem við leggjum fyrir um það hvort menn ætli að ganga á bak orða sinna þegar kemur að þessu. Því verður ekki tekið orðalaust.

Það gekk fram af manni í ofanálag við þetta að heyra stjórnarliða lýsa yfir ánægju sinni með að ekkert skuli hafa orðið af atvinnuuppbyggingu Alcoa við Bakka við upphaf þingfundar. Það er náttúrlega ekki alveg í lagi, að mér finnst, hvernig stjórnarflokkarnir haga málflutningi sínum gagnvart málstað Þingeyinga, hvort sem það varðar (Forseti hringir.) atvinnuuppbyggingu eða að standa vörð um opinbera þjónustu.