Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 17:39:35 (763)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Í dag eru um 15 þús. manns atvinnulausir og atvinnuleysi er tæplega 8%. Þúsundir manna hafa flutt til útlanda í leit að vinnu og nokkuð stór hópur sem erfitt er að skilgreina hefur þann háttinn á að hann fer til útlanda til vinnu, annar aðili í fjölskyldu, til að reyna að bjarga sér og sínum. Við höfum upplifað stöðnun núna í tvö ár, eins konar biðstöðu, það gerist ákaflega lítið. Satt best að segja er það þannig að þrátt fyrir að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafi talað um að hér sé allt á réttri leið er hagvöxtur nánast enginn, hann er drifinn áfram af mjög takmarkaðri einkaneyslu, en hagvöxtur vegna þess að atvinnureksturinn í landinu sé farinn að skila umtalsverðri arðsemi og stækka kökuna er nánast enginn.

Í dag eru meira að segja því miður engin útboð hjá opinberum aðilum og það sem verra er, útboð hjá einkaaðilum eru heldur engin. En þetta þarf ekki að vera svona. Það er til önnur leið og þess vegna leggjum við framsóknarmenn fram heildstæða efnahags- og atvinnutillögu undir nafninu plan B, planb.is ef menn vilja kynna sér betur þau gögn sem þar liggja til grundvallar.

En jafnframt höfum við lagt fram tvær þingsályktunartillögur eins og fram hefur komið, aðra um efnahagsmál sem var flutt hér í síðustu viku og núna erum við að ræða tillögu til þingsályktunar um sókn í atvinnumálum. Þar til viðbótar munum við leggja fram tillögu um nýja stefnu í sjávarútvegsmálum sem byggir á samþykkt á flokksfundi núna í vor.

Það er til önnur leið, það þarf ekki að halda áfram á þessari sömu stöðnunarleið og við höfum verið á um allt of langa hríð. Það þarf að fara þá leið að stækka kökuna. Það hljómar orðið svolítið eins og klisja að koma hjólum atvinnulífsins í gang en það er einfaldlega það sem þarf að gera. Við erum búin að vera í öfugum spíral allan þennan tíma. Niðurskurðarkrafan eykst frá ári til árs. Alltaf þarf að skera meira niður og alltaf þarf að hækka skatta meira. Þetta er ekki leiðin.

Hin leiðin er sú, og er kynnt í plani B og þessari þingsályktunartillögu, að sækja fram í atvinnumálunum, að búa til ný störf, skapa aðstæður þannig að fyrirtækin í landinu, lítil og meðalfyrirtæki, geti eflst, ráðið til sín fólk og aukið tekjur, ekki síst útflutningstekjur. Þjóðin þarf á því að halda að auka útflutningstekjur sínar um 50–60 milljarða og það eru fjölmörg tækifæri til þess. Þó nokkur slík mál hafa verið rædd í umræðunni í dag. Á auðlindum bæði til lands og sjávar, en ekki síst í mannauðnum, byggjum við okkar vinnu eins og hver önnur þjóð, hún byggir á þeim auðlindum og þeim gæðum sem hún hefur yfir að ráða. Við erum svo heppin að hafa gríðarleg tækifæri ef við nýtum þau.

Í þessari þingsályktunartillögu bendum við framsóknarmenn á fjölmargar leiðir sem hægt er að fara til að nýta tækifærið í mjög mörgum geirum atvinnulífsins. Mig langar, með leyfi forseta, að nefna til dæmis að í kaflanum um orkumál og orkuskipti kemur fram að íslenska þjóðin hafi nokkra sérstöðu í alþjóðlegu tilliti þar sem um og yfir 70% frumorkunotkunar hennar koma frá umhverfisvænum orkugjöfum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. Af slíkum árangri getur engin önnur þjóð státað. Þar eru gríðarleg tækifæri til að byggja upp í mannaflsfrekum iðnaði og fara lengra með þær tillögur, t.d. til að koma þessum sjálfbæru orkugjöfum okkar inn í fleiri þætti samfélagsins. Það má segja að í þeim tillögum sem við kynnum hér sé á margan hátt samhljómur við þá þingsályktunartillögu sem fjallar um græna hagkerfið og var rædd fyrr í dag.

Hér hefur líka verið nefndur landbúnaður og við getum breikkað það svið yfir í matvælaframleiðslu í heild sinni. Við erum gríðarlega öflug matvælaframleiðsluþjóð og er nærtækast að nefna sjávarútveginn sem er öflugur um land allt. Hann getur verið það enn frekar. Þar er hægt að sækja fram. Fyrst og fremst þarf að skapa stöðugleika í kringum atvinnugreinina svo atvinnugreinin sjálf geti dafnað. Henni gengur býsna vel og þar hjálpar auðvitað til íslenska krónan og gengið á henni, en líka að það hefur tekist að byggja upp sjávarauðlindina þannig að flestar af þeim fisktegundum sem við erum að nýta vaxa. Er þar nærtækast að nefna þorskinn sem við stefnum í á næstu árum að við getum nýtt mun betur og veitt meira en við höfum gert á liðnum árum.

Jafnvel væri í lagi að taka þar heldur stærri skerf en nú er gert. Það verður þó að fara varlega í það til að rugga ekki bátnum og skemma ekki þann vöxt sem er í þeim stofni. Þar gætum við skapað fjölmarga milljarða.

Mig langar að nota þær fáu mínútur sem ég hef eftir til að ræða gríðarleg tækifæri í landbúnaðargeiranum. Við nefnum nokkur hér. Eitt sem flokkast kannski bara undir almenna matvælaframleiðslu og getur bæði verið sjávarútvegur og landbúnaður er fiskeldi. Við gætum aukið gríðarlega hlutdeild okkar á alheimsmarkaði. Tækifærin í landinu eru gríðarleg og þetta er atvinnugrein sem við eigum að taka virkari þátt í. Það má nefna sem dæmi að í upphafi fiskeldisbylgjunnar vorum við ekki á ósvipuðum stað og Norðmenn. Við lentum líka í áföllum eins og Norðmenn. Þeir héldu hins vegar áfram og þeir framleiða núna um milljón tonn af laxi á ári og áætlanir þeirra fyrir næstu tíu árin eru að auka þá framleiðslu um 50% eða jafnvel 100%. Á sama tíma erum við að framleiða nokkur þúsund tonn af bleikju, laxi og öðrum tegundum og við erum ekki með stórtækar uppbyggingarhugmyndir um framtíðina. Þar ættum við að stefna á að geta farið í 50–70 þús. tonn og aukið þar af leiðandi útflutningstekjur okkar um tugi milljarða. Þar eru möguleikar.

Í grein eins og loðdýrarækt sem hefur fengið talsvert á baukinn á liðnum áratugum er staðan sú að sú grein skapaði rúman milljarð í útflutningstekjur á árinu 2010 og væntanlega enn meira á yfirstandandi ári. Innan greinarinnar telja menn jafnvel möguleika á að tífalda þá framleiðslu á grundvelli þess hráefnis og þeirra aðstæðna sem eru hér innan lands. Þá erum við að tala um 10 milljarða og munar um minna í grein sem við höfum hingað til varla litið á sem atvinnugrein sem gæti skilað okkur þeim tekjum. Það eru víða miklir möguleikar.

Síðan langar mig að segja vegna ummæla hv. þm. Magnúsar Orra Schrams í upphafi umræðunnar, um að hann hefði viljað sjá metnaðarfyllri tillögur í landbúnaðarmálum, að við gætum stefnt að því að stórauka matvælaframleiðsluna, bæði kjötframleiðslu og mjólkurframleiðslu innan lands til útflutnings. Í dag er framleiðslan fyrst og fremst miðuð við innanlandsþarfir. Þau kerfi sem hafa verið sett upp til að stýra framleiðslunni byggjast á því að uppfylla þarfir innanlandsmarkaðar. En um þessar mundir eru möguleikar á því að flytja út á eðlilegu verði og má þar til dæmis nefna bæði kindakjöt og ýmsar mjólkurafurðir. Í Asíu sérstaklega eru að opnast gríðarlegir markaðir fyrir matvæli sem margir horfa til og ég held að það sé eitt af þeim svæðum sem við ættum einnig að hafa í huga.

Á þessum stutta tíma gefst mér ekki tími til að fara betur yfir þetta plagg en ég fagna þeim (Forseti hringir.) jákvæðu viðbrögðum sem menn hafa þó komið með við þessa þingsályktunartillögu og vænti þess að hún gangi til nefndar, fái jákvæða umfjöllun, komi aftur hingað inn og verði þá samþykkt.