Sókn í atvinnumálum

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 17:50:00 (764)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur verið um sókn í atvinnumálum á Alþingi í dag. Miðað við þær undirtektir sem tillagan hefur fengið frá fulltrúum allra flokka, vil ég segja, um ágæti margra af þessum tillögum vænti ég þess að nú lærum við af þeirri reynslu sem síðustu þrjú ár hafa kennt okkur og vonandi verða þá þessar tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar teknar föstum tökum í þeim nefndum sem málinu verður vísað til. Vonandi munum við þá sjá uppbyggingu og tillögugerð í hinum ýmsu atvinnugreinum þannig að við horfum til sóknar í íslensku atvinnulífi frekar en að stunda þá vörn sem við höfum þurft að horfa upp á á undangengnum árum.

Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið mjög uppbyggjandi og á jákvæðum nótum. Þannig höfum við framsóknarmenn flutt mál okkar á þessu haustþingi, nú sem endranær, byggt á úrbótum og tillögum, lausnum, en síðan þurfa menn ekki að verða hissa þegar líða tekur á haustið eða næsta ár að ef við sjáum fram á að þessar tillögur og hugmyndir dagi uppi verður eðlilega ekki sami friðurinn yfir vötnunum í ræðustól Alþingis. Við höfum lagt mikla vinnu í þessa tillögugerð og við höfum trú á því að verði þær settar fram og framkvæmdar förum við að horfa til framfara hér á landi. Það veitir svo sannarlega ekki af því.

Ég óska eftir því, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvinnuveganefndar til öflugrar umræðu og afgreiðslu þar.