Matvæli

Miðvikudaginn 19. október 2011, kl. 17:04:00 (810)


140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

matvæli.

61. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir litlu frumvarpi um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum. Ásamt þeim sem hér stendur eru meðflutningsmenn hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Eygló Harðardóttir.

Ástæðan fyrir því að ég sagði litlu frumvarpi er sú að þetta hefur stundum verið kallað stóra kökumálið. Við þá aðgerð þegar þingið tók upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins á 138. löggjafarþingi, en við höfðum tekið hana að upp að nokkru leyti áður, féllu út séríslenskar reglugerðir sem giltu m.a. um kökubasara og góðgerðarsamkomur og kváðu á um að heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað gætu heimilað slíkar uppákomur. Þannig hefur það verið um áratugi ef ekki aldir, að menn hafa getað framleitt matvöru að ákveðnu marki og selt, ekki síst í góðgerðar- og líknarskyni og til fjáröflunar fyrir íþróttafélög, skáta, grunnskólabekki og aðra sem hafa þurft að safna fjármunum vegna einhverra aðgerða sem þeir ætla að standa fyrir.

Þegar við tókum upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins og felldum út allar gamlar og góðar reglugerðir sem leyfðu þetta, tókum við eiginlega upp of þrönga skilgreiningu í reglugerðunum með því að þýða þær beint yfir. Þannig varð til bann við þessari starfsemi sem ég held og fullyrði að hafi hvorki verið vilji löggjafans né ráðuneytisins eða ráðherra að koma á, þ.e. að banna að framleiða mætti vöru í heimahúsi og selja síðan á kökubösurum, þorpshátíðum eða heimahéraðahátíðum. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum þetta til. Það varð til að mynda af þessu mikið fár í sumar þegar ákveðin hátíð á Akureyri var stöðvuð sem og fjáröflun á Egilsstöðum. Í kjölfarið varð talsverð umræða í samfélaginu og sá sem hér stendur lýsti því að hægt væri að leyfa þetta með einfaldri reglugerðarbreytingu. En það er rétt að skýrara og betra er að skýr lagastoð sé að baki og það er ástæðan fyrir því að þetta frumvarp er fram komið.

Mjög ríkar ástæður þurfa að vera fyrir því ef löggjafinn breytir því sem við höfum leyft og teljum fullkomlega eðlilegt í samfélaginu. Ég fullyrði að þetta bann hafi ekki verið vilji löggjafans. Engu að síður er auðvitað nauðsynlegt að menn fari varlega og séu ekki að framleiða hvað sem er við aðstæður sem hugsanlega eru ekki eins og þær sem atvinnufyrirtækin eru skikkuð til að hafa. Þetta snýst auðvitað heldur ekki um óeðlilega samkeppni við fyrirtæki sem uppfylla öll lagaskilyrði og starfsleyfi vegna baksturs eða sultugerðar eða einhvers slíks. Fyrst og fremst er verið að gefa undanþágu fyrir eðlilega starfsemi sem hefur mjög skýra skírskotun til sögu og menningar. En það er líka mjög mikilvægt fyrir félagsstarfið í öllum þessum félögum, hvort sem eru ungmennafélög, kvenfélög, skátahreyfingar eða bekkjardeildir, að menn leggi þessa vinnu á sig, komi saman og vinni saman, það hefur gríðarlega jákvæðan, félagslegan tilgang, fyrir utan að þetta er oft og tíðum mjög mikilvæg fjáröflun fyrir hvern og einn.

Sú leið sem hér er farin er að setja inn undanþágu við 9. gr. laganna. Þar verði sett inn ný málsgrein er verði 4. mgr. og orðist svo:

„Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er heimilt að gefa út tímabundið starfsleyfi vegna tiltekins atburðar. Skilyrði slíks leyfis er að um sé að ræða góðgerðarstarfsemi, stuðning við félagsstarf eða annan sambærilegan tilgang. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. eiga ekki við um þá sem fá starfsleyfi samkvæmt þessu ákvæði. Önnur ákvæði laga þessara eiga við eftir því sem við á. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem m.a. er kveðið á um skilyrði fyrir tímabundnu starfsleyfi vegna tiltekins atburðar og framleiðslu og dreifingu matvæla samkvæmt slíku leyfi.“

Þessi grein passar algerlega inn í það regluverk sem við vorum að taka upp. Við þekkjum það þegar við förum erlendis að slíkir atburðir eru fullkomlega leyfðir og ekkert athugavert við þá og ég held að það hafi aldrei verið tilgangur löggjafans að banna þá. Með þessu litla frumvarpi um stórt mál verður þetta heimilað á ný. Ég vonast til að málið fái hraða meðferð hjá þingnefndum og komi aftur til þingsins svo hægt verði að afgreiða það. Líklega er rétt að því verði vísað til atvinnuveganefndar til frekari umfjöllunar.