Áfengislög

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 14:33:30 (981)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mismunun og mismunun ekki. Það er bannað að auglýsa áfengi á Íslandi. Það er hins vegar rétt að í erlendum blöðum og tímaritum sem eru seld hér birtast áfengisauglýsingar sem í sjálfu sér eru opnar öllum, hvort sem það eru þeir sem framleiða og selja áfengi hér á landi eða utan landsteinanna. Almennt er fjölmiðlaheimur okkar, þ.e. íslensk blöð og tímarit, íþróttaleikvangarnir, útvarp og íslenskt sjónvarp, sá veruleiki sem við búum við. En það er alveg rétt að inn á okkar borð berast erlend tímarit. Þar er að finna áfengisauglýsingar í sumum hverjum. Tekist er á um það í heiminum hvert eigi að stefna í þessum efnum og við þurfum að gera það upp við okkur hvort við ætlum að vera á sveifinni með þeim sem eru að stemma stigu við áfengisauglýsingum — eða viljum við leyfa þær? Sú niðurstaða sem íslenskur löggjafi hefur komist að er að hér eigi að vera bann við áfengisauglýsingum. Það bann er hins vegar ekki virt. Það eru göt í lögunum sem opna fyrir áfengisauglýsingar og upp í þau göt erum við að stoppa.