Áfengislög

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 14:59:58 (992)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[14:59]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Er það dónaskapur eða einhver orð sem maður þarf að gæta sín á að hv. þingmaður kemur og svarar ekki þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint? Hvað vill hún gera í þessu máli? Já, við erum sammála um að auka forvarnir í skólum. Ég er ekki alveg viss um að SÁÁ og áfengisvarnafélög í landinu og áhugamenn séu sammála hv. þingmanni og fyrrverandi menntamálaráðherra um að ástandið hafi batnað stórlega í áfengismálum ungmenna. Ég er ekki viss um það. Beiðni í fjárlagaafgreiðslunni um auknar fjárveitingar til þessara mála benda ekki til þess. Við erum auðvitað sammála um þetta, það er alveg rétt, en hvað vill þingmaðurinn gera í málinu?

Það sem málið fjallar um, forseti, og það er ekki dónaskapur eða orð sem ég þarf að gæta mín á, er að það eru lög hérna í landinu sem banna áfengisauglýsingar. Við getum verið fylgjandi þeim lögum. Við getum verið á móti þeim lögum. Það mál á að leysa í þingsal. Það eiga fulltrúar þjóðarinnar sem kjörnir eru til að setja lög og afnema þau að leysa. Óprúttnir menn sem ekki er treystandi til að halda sig sæmilega skynsamlega innan marka, eins og hv. þingmaður sagði áðan, hafa tekið þennan lagabókstaf og misnotað hann og auglýsa eina vöru en eiga við aðra sem öllum er augljóst, en vegna þess að lögin eru ekki skilmerkileg hafa menn komist upp með þetta. Það eina sem hæstv. dómsmálaráðherra nú og aðrir á undan honum (Gripið fram í.) eru að reyna er að loka þessu gati þannig að lögin standi — þannig að lögin séu til í landinu, vegna þess að með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Það er það sem málið fjallar ósköp einfaldlega um.

Ef hv. þingmaður vill að hægt sé að auglýsa hér bjór, áfengi upp að vissu marki undir nafninu léttbjór eða undir nafninu kóka kóla eða kristalsgos, er rétt að hún komi hingað upp í stólinn og láti það í ljósi og uni ekki þeim dónaskap að vera spurð um hluti sem hún getur ekki svarað og að menn þurfi að gæta orða sinna í samtölum við þennan sérstaklega viðkvæma hv. þingmann og fyrrverandi ráðherra í hrunstjórninni.