Áfengislög

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 15:38:26 (1004)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

áfengislög.

136. mál
[15:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Menn koma hér upp með mikilli umhyggju fyrir innlendum framleiðendum bjórs en ekki umhyggju fyrir innlendum framleiðendum sterks víns. Fyrsta spurningin er auðvitað: Hver er munurinn á réttarstöðu þessara framleiðenda, eru þeir verri sem framleiða sterk vín en þeir sem framleiða létt vín? Eru þeir sem framleiða bjór eitthvað meiri glæpamenn en þeir sem framleiða sterk vín? Auðvitað ekki, menn framleiða þetta í góðum tilgangi og til að selja það.

Ef menn nálgast þetta mál bara út frá viðskiptasjónarmiði, að hér sé vara sem beri að gefa eðlilegt svigrúm á markaði, hlýtur maður að segja: Já, það er auðvitað rétt, frá þeim þrönga sjónarhóli er það þannig, en þá verða menn að skýra sterk vín og létt vín.

Ég held því ekki fram, og enginn hér, að þetta séu auðveld mál og að það séu skýrir kostir í þessu. Það eru þessi áfengismál ekki vegna þess að áfengi er ekki venjuleg vara, ekki frekar en byssur eða fíkniefni, t.d. hass eða læknadóp. Þetta eru erfiðir hlutir sem verið er að fást við í samfélaginu með ýmsum hætti og sem þingið og stjórnvöld hér hafa ekki staðið sig vel í nokkurn tíma að eiga við. Það eru margar þverstæður og skrýtilegheit í því.

Það verður hins vegar að taka fram út af ræðu hv. þingmanns að hér er ekki verið að setja á eitthvert bann. Í 20. gr. núgildandi laga stendur þetta, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.“

Það sem verið er að segja með þessu frumvarpi er ósköp einfaldlega: Við skulum hafa þessi lög og við skulum fylla upp í það gat sem er á þeim. Það gat er þannig, forseti, að óprúttnir framleiðendur og seljendur hafa notfært sér að það má auglýsa léttbjór, það er þannig, (Forseti hringir.) og auglýsa í raun og veru sterkan bjór með honum með þeim hætti að þeim auglýsingum er beint að unglingum og ungu fólki þar sem ríkir mikil glaðværð, enda verið að drekka bjór. (Forseti hringir.) Bjórinn er forsenda glaðværðarinnar og drykkjan er forsenda eðlilegs samlífs og samskipta í unglingaheiminum. Það er þetta sem er ekki gott, forseti.