Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 11:43:26 (1151)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það fyrsta er náttúrlega alveg ljóst, þrepaskatturinn og útfærsla hans hefur lækkað skattbyrði lágtekju- og upp í millitekjufólks umtalsvert. Það blasir við hverjum manni sem tekur álagninguna 2011 vegna tekna ársins 2010, og álagninguna 2009 vegna tekna ársins 2008, og ber það saman. Þar kemur fram, með gögnum sem enginn getur neitað, að lágtekju- og millitekjufólk er að greiða umtalsvert lægra hlutfall heildartekna sinna í skatta í nýja kerfinu en áður var, en hinir vissulega meira.

Síðan mun full verðtrygging persónufrádráttarins núna létta skattbyrði að því er mér sýnist að meðaltali um 0,2%, sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Það bætist þá við þá lækkun sem lág- og millitekjuhóparnir fá út úr kerfinu eins og það er orðið. (Forseti hringir.) Það er með fullgildum rökum hægt að halda því fram að í heildina tekið komi þetta jákvætt út fyrir ráðstöfunartekjur heimilanna.