Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 11:51:13 (1157)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála því að ekki er skynsamlegt að blanda saman sköttuðum og ósköttuðum inngreiðslum. Það var ein ástæðan fyrir því að ég var alltaf afar tortrygginn út í hugmyndir um það að fara að kljúfa upp lífeyrissjóðakerfið með því að hverfa frá skattfrelsi inngreiðslna yfir í að skatta inngreiðslur og hafa síðan útgreiðslurnar óskattaðar. Ég held að fyrirkomulagið sem er til staðar sé miklu eðlilegra og jafnar betur tekjustreymi ríkisins með hliðsjón af þeim sparnaði sem byggist upp. Það er eðlilegra að menn leggi af mörkum á hverjum tíma þegar þeir fá tekjurnar út í staðinn fyrir þegar þeir greiða inn. Það var líka ein aðalástæðan fyrir því að það er ekki hægt nema þá að fara í meiri háttar umbyltingu á kerfinu ef á að fara að blanda saman sköttuðum og ósköttuðum inngreiðslum.

Varðandi nefskattana og krónutölugjöldin er svarið nei. Við höfðum nóg fyrir því að ná þeim slaka upp til verðlags sem hafði myndast á umliðnum árum og nú höfum við látið þetta fylgja verðlagi í aðalatriðum tvö ár í röð. (Forseti hringir.) Það er ekki um raunhækkanir að ræða heldur eingöngu að láta þetta fylgja verðlagi og það hefur ekki gefið góða raun að láta raungildi þessara tekjustofna, sem eru lagðir á í tilteknu (Forseti hringir.) skyni, falla.