Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 11:53:50 (1159)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi makrílinn er auðvitað ljóst að við erum að fá þar mjög mikla búbót inn í hagkerfið okkar. Verðmætin hafa aukist þar mjög mikið, fyrst og fremst vegna þess að magnið hefur aukist en við höfum líka náð að hækka gríðarlega á tveimur árum hlutfall sem fer til manneldisvinnslu. Það hefur vissulega haft ákveðin áhrif upp á við á hráefnisverðið sjálft en það er þó sérstaklega verðmætisaukinn í vinnslunni sem skilar okkur gríðarlega miklu. Ég bið menn aðeins að hafa fyrirvara á færeysku tölunum því að eins og ég kann þær réttar er einungis hluti makrílkvótans þar tekinn og boðinn upp og þar fékkst vissulega hátt verð en það endurspeglar ekki endilega greiðslugetu greinarinnar ef allt hefði verið boðið upp. Mér hefur virst að menn væru með ansi háar tölur hér að leika sér með að við gætum tekið þriðjung og upp undir helming af heildarverðmæti makrílvertíðarinnar út úr greininni í formi veiðigjalds. Það held ég að gengi ekki upp.

Varðandi það hvort það eigi, þegar nýr stofn kemur inn og ekki hefur verið úthlutað kvóta, að fara þá leið að bjóða upp eða leggja á sérstakt veiðigjald (Forseti hringir.) og/eða taka tillit til þess að þær útgerðir sem fá úthlutunina, uppsjávarfyrirtækin að uppistöðu til í þessu tilviki, eru þá að sjálfsögðu (Forseti hringir.) í betri færum til að greiða hærra almennt hærra veiðigjald.