Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 12:12:57 (1163)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem átt er við með heildaráhrifunum hér og að þau séu samanvegin jákvæð er annars vegar lækkun tryggingagjaldsins sem dregur verulega úr launakostnaði launagreiðenda í landinu. Það munar um minna en 8 milljarða lækkun á þeim skatti á næsta ári. Þegar kemur að heimilunum eða einstaklingunum þá er það þannig að samanlögð áhrif af fullri verðtryggingu persónufrádráttarins og þeirra skattbreytinga sem innleiddar hafa verið að öðru leyti í gegnum þrepaskiptan tekjuskatt munu sannarlega þýða að hlutfall heildartekna sem lágtekju- og upp í millitekjufólk greiðir í skatta mun áfram fara lækkandi, sennilega um 0,2% af heildartekjum til viðbótar, sem eru fólgnar í því að persónufrádrátturinn verður að fullu verðtryggður miðað við þær verðbólguhorfur sem við sjáum núna frammi fyrir okkur og munu endanlega liggja fyrir. Við munum byggja á spá Hagstofunnar seinna í þessum mánuði þegar kemur að því að stilla það endanlega af.

Varðandi afdráttarskattinn sem hv. þingmaður nefndi er það einfaldlega þannig að skattalög og framkvæmd er náttúrlega ekki statískt fyrirbæri. Ef málefnalegar ástæður koma fram og við sjáum að annmarkar eru á framkvæmd eða breytingar koma ekki út með þeim hætti sem þeim var ætlað að gera höfum við ekkert verið feimin við að endurskoða það. Við höfum þegar gert ýmsar slíkar breytingar og m.a. í samráði við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð, sem hefur búið út lista yfir atriði sem það hefur viljað fara yfir. Við tókum nokkrar slíkar lagfæringar í gegn í lögum í vor eins og hv. þingmaður veit.

Ég get verið sammála því varðandi veiðigjaldið að að sjálfsögðu væri best að ná þessu öllu saman í einni heildstæðri lausn, þ.e. framtíðarfyrirkomulagi um stjórn fiskveiða og skattlagningarumhverfi greinarinnar. Vonandi verða færi til þess að ná því öllu saman á næstu mánuðum ef okkur vinnst vel.