Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 12:26:15 (1169)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:26]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skattpíning er að mínu mati ekki skattpíning nema það hafi neikvæð áhrif. Það er alveg rétt að það getur vel verið að skattbyrðin sé þung, það er allt annað en skattpíning. Ef þessi þunga skattbyrði mundi hafa þau áhrif að fólk mundi draga sig út af vinnumarkaði og fara yfir í svarta vinnu væru það alvarleg tíðindi og eitthvað sem ég mundi kalla skattpíningu. Því undrast ég að Sjálfstæðisflokkurinn skuli kalla þunga skattbyrði skattpíningu.

Einnig má geta þess að rannsóknir staðfesta ekki að þung skattbyrði dragi úr hagvexti eða lífskjörum. Það er í raun og veru hægt að finna rannsóknir sem bæði styðja það og fara gegn því, það eru því ekki skýr tengsl þarna á milli, sem er eitthvað sem maður mundi þá hafa áhyggjur af í landi þar sem skattbyrði er afar þung, eins og OECD virðist álíta að sé á Íslandi þegar búið er að taka lífeyrissjóðsgreiðslur inn í.

Ég vil líka ræða annað mál við hv. þingmann, þ.e. hver sé skoðun hans á svokölluðum hvalrekahagnaði útflutningsfyrirtækja. Þessum hvalrekahagnaði hefur verið hafnað vegna þess að hann þykir flókinn í útfærslu en það virðist aldrei vera of flókið að skera niður t.d. í heilbrigðisgeiranum þó að við höfum mörg dæmi um að niðurskurður í einum hluta kerfisins leiðir til útgjaldaaukningar í öðrum hluta.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að veiðileyfagjaldið geti komið í staðinn fyrir hvalrekahagnað eða er hann sammála mér um það að þeir sem tala um að veiðileyfagjald geti komið í staðinn fyrir hann skilji ekki út á hvað hvalrekahagnaður gangi?