Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 12:51:26 (1175)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:51]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann og ráðuneyti hans hafi skoðað kosti og galla þess að leggja á hinn svokallaða hvalrekaskatt, eða það sem heitir á ensku „windfall profits“. Hvalrekahagnaður er í raun og veru sá hagnaður sem útflutningsfyrirtækin fá, ekki vegna þess að þau hafa unnið til hans, heldur vegna þess að hér varð bankahrun og við það varð trúverðugleiki krónunnar að engu. Það hefur orðið til þess að gengi krónunnar er í sögulegu lágmarki, eða um 20% lægra en síðastliðin 30 ár að meðaltali. Þetta lága gengi myndar mjög mikinn hagnað tímabundið hjá útflutningsfyrirtækjum. Rökstuðningur fyrir því að taka þurfi hluta af þeim hagnaði frá fyrirtækjunum er að annars verði hann til þess að fyrirtækin fari í óarðbæra fjárfestingu eða starfsemi, ráði til dæmis fólk á forsendum þess að gengið er 20% lægra en það ætti að vera. Á sama tíma er ríkið að segja upp fólki vegna þess að það fær ekki þær skatttekjur sem það ætti að fá.

Ég vil því vita hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur látið skoða þennan skatt á hvalrekahagnað útflutningsfyrirtækja.