Fjársýsluskattur

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 13:48:39 (1186)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta munu menn að sjálfsögðu reikna út hversu langt þeir geta gengið og þeir fá náttúrlega útskattinn og innskattinn á móti þannig að það yrði eflaust flókið dæmi. Þetta munu menn örugglega reyna að gera. Þess vegna er ekki víst að tekjurnar verði eins miklar af þessum skatti og menn ætla.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að þetta breytti ekki miklu varðandi lífeyrissjóðina. Nei, þetta er enn eitt lóðið á vogarskálarnar þar sem verið er að lesta lífeyrissjóðina almennt og kemur bara niður á almennu sjóðunum. Talað er um að sérstöku vaxtaniðurgreiðslurnar eigi eftir að leysa 1.400 milljarða gagnvart lífeyrissjóðunum. Það kemur bara við almennu sjóðina, ekki neitt við opinberu sjóðina því ríkið borgar það hvort sem er. Þannig að ég held að menn þurfi að fara mjög varlega í að skekkja þetta vegna þess að almennu sjóðfélagarnir sem borga í almennu lífeyrissjóðina fá skert réttindi en þurfa á sama tíma að borga hærra iðgjald í gegnum ríkið, í gegnum skattana, í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þeir eru því tvöfalt lestaðir. Ég held að heimilin séu ekki svo vel sett í dag að geta það. Ég bendi á að lífeyrissjóðirnir eru jú ekkert annað en eign heimilanna, eign sjóðfélaganna, þeir eru meira að segja stærsta eign heimilanna eða um 17 millj. kr. á hvert heimili sem er í lífeyrissjóði. Menn ættu heldur að standa vörð um þessa eign heimilanna en að vera að krukka í hana hér og þar.