140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir viðeigandi dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga.

52. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir viðeigandi dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Saga þessarar hugmyndar eða orðræðu um málshöfðun er nokkuð löng. Hún nær allt aftur til haustsins 2008 er þáverandi formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður, Guðni Ágústsson, kom fram með þá kröfu að höfða ætti mál á hendur bresku ríkisstjórninni. Skrifaði hann grein í Morgunblaðið sem hann kallaði „Kærum breska heimsveldið“. Í grein Guðna Ágústssonar stendur, með leyfi forseta:

„Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og úthrópa enn fremur Ísland gjaldþrota. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki. Út á þessa yfirlýsingu Browns er verið að stöðva viðskipti Íslendinga um víða veröld.“

Eins og allir vita var Gordon Brown á þessum tíma forsætisráðherra Bretlands.

Rætt hefur verið um þetta mál fram og til baka. Menn hafa meðal annars velt því fyrir sér í tengslum við Icesave-málið svokallaða þar sem Bretar og Hollendingar fóru fram með ósanngjarnar kröfur á hendur Íslendingum. Þá sögu þekkja allir en eftir stendur að sjálfsögðu hvort breska ríkisstjórnin, hvort breskir ráðherrar á þeim tíma, hafi valdið slíku tjóni að við Íslendingar séum enn að glíma við það. Ákveðnar vísbendingar eru um að svo sé.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að til greina kæmi að höfða slíkt mál og í svari við fyrirspurn frá mér sagði forsætisráðherra að þetta hefði verið rætt í ríkisstjórninni og það kæmi vel til greina. Hún sagði jafnframt að sjálfsagt væri að hafa samráð við þingið um málið, það væri þess eðlis. Einnig kom fram í orðum hæstv. ráðherra að lögmenn ráðuneytisins væru farnir að skoða málið. Það er mjög mikilvægt að ef einhver vinna er farin af stað innan ráðuneytanna verði hún nú þegar kynnt utanríkismálanefnd því að þessi tillaga mun að sjálfsögðu verða send þangað.

Síðan er vert að minnast þess að tveir einstaklingar hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, þeir Loftur Altice Þorsteinsson og Pétur Valdimarsson, að leita réttar fyrir Íslands hönd. Þeir hafa meðal annars verið í bréfaskriftum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og eru að senda mjög góðar greinargerðir varðandi þetta mál. Er vert fyrir okkur að fylgjast með þeirri vegferð og þakka þeim fyrir það frumkvæði að taka þetta í eigin hendur. En við höfum séð íslensku þjóðina gera það og ganga vel þegar hún stendur saman og rétt er að nefna Icesave í því máli.

Þann 7. október var frétt á Stöð 2 þar sem talað var við einn af stjórnendum Múlalundar. Þar segir sá ágæti stjórnandi að hryðjuverkalögin, sem Bretar beittu okkur haustið 2008, hafi enn áhrif á íslensk fyrirtæki þremur árum síðar. Hann tekur sem dæmi að dönsk fjármálafyrirtæki treysti ekki enn Íslendingum og það hafi reynst þessu fyrirtæki erfitt.

Við megum ekki heldur gleyma því að hryðjuverkalögin voru ekki eingöngu sett fram gagnvart Landsbankanum eins og margir halda. Þau voru líka sett fram gagnvart Seðlabanka Íslands og íslensku ríkisstjórninni og sköðuðu þar af leiðandi orðsporið gríðarlega. Seðlabanki Íslands og íslenska ríkisstjórnin voru um tíma á lista með hryðjuverkasamtökum líkt og al Kaída og alræmdum glæpamönnum eins og Múammar Gaddafí sem hefur nú verið steypt af stóli og Líbía frelsuð undan hans stjórn. Meðal þessara manna og félaga settu Bretar íslensku þjóðina eða íslenska ríkið, Seðlabankann og Landsbankann. Ekki þarf að spyrja að áhrifum þess að lenda í flokki með slíkum aðilum. Leyfi ég mér að furða mig á því að ekki hafi verið gert meira úr því að taka í lurginn á Bretum fyrir að hafa gert okkur þennan mikla óleik sem kostað hefur okkur svo mikið.

Beiting hryðjuverkalaganna hefur síðan verið afsökuð af hálfu varnarmálaráðherra Breta og undirstrikar það enn frekar hversu óréttlátt hún var. Jafnframt hefur verið skrifuð skýrsla þar sem reynt er að meta beint fjárhagslegt tjón en þar er ekki reynt að meta orðsporstjón eða annað. Því er mikilvægt að hreyfa við þessu máli.

Virðulegi forseti. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að undirbúa málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir viðeigandi dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum. Málssóknin verði í fyrsta lagi byggð á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið tilefnislaus, ekki lögum samkvæmt og hafi skaðað íslenskt orðspor og fjárhagslega hagsmuni þjóðarinnar. Í öðru lagi verði gerð krafa um skaðabætur fyrir það tjón sem ákvörðun breskra stjórnvalda olli íslenska ríkinu og íslenskum fyrirtækjum.

Hinn 8. október 2008 beittu bresk stjórnvöld lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Landsbanka Íslands, frystu eignir bankans og settu þar með Ísland á lista yfir hættulegustu samtök og menn heimsins. Með þeim aðgerðum skilgreindu bresk stjórnvöld Ísland og Íslendinga sem hryðjuverkamenn.

Ekki þarf að fjölyrða um þann orðsporsskaða sem hlaust af ákvörðun breskra stjórnvalda. Á einni nóttu hvarf traust á viðskiptum við Íslendinga og íslensk fyrirtæki sem ríkt hafði í áratugi. Í viðtali við Fréttablaðið 21. október 2008 segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: „Fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni sem ekki er hægt að mæla. Viðskiptasambönd hafa trosnað, greiðslufrestur felldur niður og staðgreiðslu krafist. Ofan á þetta bætist gríðarleg veiking á gengi krónunnar.“ Hann segist sjá fram á hrinu uppsagna í verslun og þjónustu fyrir mánaðamót. „Menn reyna að tóra og hagræða eins og þeir lifandi geta en við óttumst uppsagnahrinu. Spurningin er aðeins hversu stórkostleg hún verður.“

Í grein eftir Magnús Inga Erlingsson sem birt var í Morgunblaðinu 3. nóvember 2008 segir meðal annars: „Með beitingu hryðjuverkalaga Breta var traust á stjórnvöldum og íslenskum fyrirtækjum þurrkað út á erlendum vettvangi og viðskipti við landið lömuðust. Hökt hefur verið á gjaldeyrisviðskiptum við landið. Á því tjóni bera bresk stjórnvöld ábyrgð samkvæmt skaðabótareglum Evrópusambandsins og EES-samningsins sem þróast hafa fyrir tilstilli dómafordæma Evrópu og EFTA-dómstólsins.“

Ljóst má vera að beint og óbeint tjón íslensks atvinnulífs varð gríðarlegt og dýpkaði þannig þá efnahagslegu kreppu sem skollin var á. Margt bendir því til þess að fjárhagslegt tjón íslensku þjóðarinnar og íslenskra fyrirtækja vegna aðgerða bresku ríkisstjórnarinnar sé mikið. Því er eðlilegt að bresk stjórnvöld axli ábyrgð á því tjóni sem ákvörðun þeirra olli og greiði skaðabætur, enda um ólöglega og svívirðilega framkomu að ræða, með tilliti til þess að í ræðu sinni í breska þinginu kl. 12.33 þann 8. október 2008 hélt Alistair Darling því ranglega fram að bankinn Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) hefði verið settur í skiptameðferð á síðustu klukkustund þegar hið rétta var að á þessum tíma hafði breska fjármálaeftirlitið (FSA) bannað KSF að taka við nýjum innlánum. Því er ekki ljóst hver er orsök og hvað er afleiðing þegar kemur að atburðarásinni við fall Kaupþings, þ.e. ummæli Darlings í breska þinginu eða bann FSA við því að KSF tæki við nýjum innlánum. Í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að sýnt sé að atvik þau sem tengdust KSF hafi ráðið úrslitum um fall Kaupþings.

Aðgerðir breskra stjórnvalda í kjölfar falls íslensku bankanna hafa að öllum líkindum leitt til mikils tjóns fyrir íslensku þjóðina. Því er nauðsynlegt að fá staðfest fyrir viðeigandi dómstól að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið með öllu óviðeigandi og að aðgerðirnar hafi ekki verið málefnalegar og löglegar þar sem aldrei var ljóst að gríðarleg ógn steðjaði að stöðugleika breska fjármálakerfisins, eins og breska ríkið hefur haldið fram. Þá verður varla horft fram hjá orðum breska varnarmálaráðherrans í norskum fjölmiðlum um að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið ómakleg og verði líklega ekki notuð aftur með sama hætti. Yfirlýsingu ráðherrans má túlka sem viðurkenningu á því að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið vafasöm og jafnvel viðurkenningu á því að íslenska ríkið og íslensk fyrirtæki eigi skaðabótakröfu á bresk stjórnvöld vegna aðgerða þeirra.

Við undirbúning málssóknarinnar er mikilvægt að fá eins nákvæma mynd af tjóninu og hægt er. Eðlilegast væri að lögmenn þeir er sækja mundu málið fyrir Íslands hönd fengju sérfræðinga til að afla upplýsinga og leggja mat á það tjón sem ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar olli íslensku þjóðinni og fyrirtækjum á Íslandi.

Virðulegi forseti. Tillaga þessi er í sjálfu sér ekki mjög flókin og greinargerðin þar af leiðandi ekki heldur. Það þekkja allir þetta mál. Það þekkja flestir áhrifin sem umrædd ákvörðun breskra stjórnvalda hafði. Við þekkjum umræðuna sem verið hefur og við vitum og sjáum að enn eru íslensk fyrirtæki að glíma við vandamál vegna beitingar þessara laga.

Það er einnig mikilvægt fyrir Alþingi og fyrir ríkisstjórnina, og í raun fyrir þjóðina alla, að sameinast og sýna mátt samstöðunnar í þessu máli þar sem um réttlætismál er að ræða fyrir íslenska ríkið og íslensku þjóðina. Ekki er hægt annað en fara fram á það að tillaga þessi fái hraða meðferð í utanríkismálanefnd, þ.e. verði tekin strax á dagskrá og til umræðu og rætt verði við forsætisráðuneytið um hvernig best sé að halda á málinu. Ef vinna er farin í gang á vegum forsætisráðuneytisins er mikilvægt að sú vinna verði kynnt fyrir utanríkismálanefnd nú þegar þannig að hægt sé að bera þá vinnu saman við þá tillögu sem hér er. Jafnframt er mikilvægt að utanríkismálanefnd kalli til sín sérfræðinga, lögmenn sem hafa sérfræðikunnáttu og reynslu á sviði alþjóðaréttar og þá Evrópuréttar og slíku.

Hér er um stórmál að ræða. Hér er mál sem mun án efa, verði samþykkt að ganga þessa leið, vekja einhvern taugatitring meðal breskra stjórnvalda. En ég leyfi mér að segja, frú forseti: Hvað með það þó að bresk stjórnvöld muni hugsanlega mótmæla þessu, reyna að sýna okkur klærnar eða eitthvað slíkt? Þá segi ég nú bara: Hvað með það? Það er kominn tími til að Íslendingar svari fullum hálsi fyrir óréttlæti sem bresk stjórnvöld beittu þá. Hér er kjörið tækifæri til að gera það. Við höfum tækifæri til að standa saman, koma fram sem ein heild, þingið, ríkisstjórnin og kjósendur okkar. Hér er um réttlætismál að ræða sem ég vona að utanríkismálanefnd taki fyrir sem allra fyrst þannig að við getum sett þessa vinnu í gang vel fyrir jól og þá verið komin með einhvers konar niðurstöðu eða tillögur um hvernig halda eigi á málum í framhaldinu fljótlega eftir áramót. Það er ekki eftir neinu að bíða, frú forseti.

Ég legg til að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til utanríkismálanefndar til meðferðar þar.