Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 15:44:48 (1289)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir hv. þingmanns við þessar tillögur og get tekið undir með honum varðandi það að það vekur athygli að það eru stjórnarandstöðuflokkarnir sem leggja hér fram efnahagstillögur fyrir framtíðina. Ríkisstjórnin hefur boðað efnahagstillögur fyrir næsta ár, en þær hafa ekki enn litið dagsins ljós.

Varðandi skattamálin sérstaklega erum við með mjög sérstakt skattkerfi á Íslandi með mjög háum persónuafslætti, háum skattleysismörkum. Þetta er mjög sérstakt í samanburði miðað við hvernig það er annars staðar á Norðurlöndum og reyndar í velflestum öðrum Evrópuríkjum. Þetta leiðir til þess (Gripið fram í.) að við erum með óendanlega mörg skattþrep. Sá sem hæst hefur launin er í hæsta skattþrepinu. Sá sem lægst hefur launin er í lægsta skattþrepinu. Þetta er það kerfi sem við teljum að nái því mikilvæga markmiði sem hv. þingmaður kemur hér inn á, að skapa ákveðinn jöfnuð, en þó þannig (Forseti hringir.) að forðað er að mestu jaðaráhrifum skattþrepanna. Við lögðumst þess vegna á móti skattþrepunum sem ríkisstjórnin kynnti til sögunnar.