Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:05:44 (1298)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:05]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók dæmi um þessi ríki í Norður-Evrópu vegna þess að þau búa í raun og veru við öflugt skattkerfi. Þau afla mikilla tekna til að standa undir sameiginlegum sjóðum, hvort sem það er á sviði velferðar, menntakerfis eða annarra verkefna. Þær þjóðir telja að í gegnum skattkerfið, í gegnum öfluga tekjustofna, sé mikilvægt að sækja fjármuni því að í gegnum velferðarkerfið og í gegnum menntakerfið er hægt að skapa hagvöxt til lengri tíma litið. Við styðjum þá sem orðið hafa fyrir áföllum, við menntum unga fólkið okkar til að það geti stofnað fyrirtæki og sótt fram, skapað samkeppnishæfa vöru sem við getum selt til útlanda, og þannig streyma fjármunir inn í hagkerfið.

Ég tel að við eigum að fara þessa sömu leið. En þá þurfum við líka að hafa gott skattkerfi sem grípur þá fjármuni og gerir það með skynsamlegum hætti. Ég er tilbúinn að lækka skatta til að örva atvinnulífið og þess vegna nefndi ég dæmi um tryggingagjaldið. Það hefði verið klók skattalækkun að fara ekki þá leið að hækka tryggingagjaldið á sínum tíma heldur taka kannski þau gjöld, þá fjármuni sem við þurftum að sækja, í gegnum umhverfisgjöld, þeir sem menga eiga að borga meira, grípa kannski eitthvað í þá auðlindarentu sem er að skapast af þeim auðlindum sem nýttar eru á Íslandi. Ég hefði farið þá leið í skattahækkunum en ekki fara í gegnum tryggingagjaldið sem gengur út á það að fyrirtæki borgi krónur fyrir hvern starfsmann sem þau hafa í vinnu eða ráða í vinnu, það er rangur hvati. Að því leytinu til held ég að við getum náð saman.

Ég held hins vegar að það sé óábyrgt tal að koma hér fram og segja: Við munum afnema allar þær skattbreytingar sem ríkisstjórnin réðist í. Vegna þess að margar þeirra voru hyggilegar og jákvæðar, t.d. hvað snertir breytingar á tekjuskatti einstaklinga.