Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:09:49 (1300)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að upplýsa hv. þingmann um að ég las þessa grein, ég held að umfjöllun hafi verið um þetta í vikublaðinu Economist á sínum tíma. Ég man eftir því að ég las hana, ljósritaði og dreifði til valinkunnra aðila. Ég er því fullkomlega meðvitaður um þá stúdíu sem hv. þingmaður vitnaði til. (Gripið fram í.) Ég sagði það aldrei, og það ber að hafa í huga, virðulegi forseti, að það hefði verið óskynsamlegt, við þurftum bara að bregðast við þeirri stöðu sem var hjá ríkissjóði á þeim tíma, það þurfti að brúa fjárlagagat. Sjálfstæðismenn taka undir það í tillögum sínum. Mikilvægast er að ná endum saman. Las ég það ekki einhvers staðar í skýrslunni að það væri mikilvægasta verkefnið? Ná niður vaxtakostnaði ríkisins, ná endum saman, uppsafnaður halli ríkisins á þessu árabili hefði verið einhverjir X milljarðar og það væri óásættanleg staða. (Gripið fram í.) Þess vegna var það mikilvægasta verkefnið hjá þeim þingmönnum sem komu hér inn og studdu núverandi ríkisstjórn til valda að ná endum saman. Það gerum við annaðhvort með því að skera niður útgjöld eða hækka tekjurnar. (Gripið fram í.)

Eins og ég benti á í ræðu minni hækkuðum við tekjurnar þó ekki meira en það að við vorum í raun bara að viðhalda þeim tekjum sem voru fyrir hrun, vegna þess að veltuskattarnir hrundu og við þurftum að bregðast við því með einhverjum hætti. (Gripið fram í.) Ef við hefðum ekki farið í að aðlaga skattkerfið að breyttum forsendum hefði þurft að skera meira niður. Ég man alveg eftir því þegar við komum hingað inn og þurftum að skera niður í ríkisrekstri þá komu þingmenn úr hverju kjördæminu á fætur öðru og kvörtuðu sáran yfir því hve hart væri gengið fram gagnvart menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, gamla fólkinu, unga fólkinu, mæðrunum o.s.frv. Menn voru ekki tilbúnir að koma með okkur í það verkefni en menn eru tilbúnir núna að eyða öllum þeim peningum sem við höfum safnað í sjóði og passað upp á að hafa ekki eytt á undanförnum árum. Því tel ég þetta plagg vera kosningaplagg.