Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:11:56 (1301)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:11]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka þátt í umræðunni um skatta. Eitthvað virðast rannsóknir vera misvísandi því að ég man eftir rannsókn sem var unnin fyrir þingnefnd bandaríska þingsins á því hvort betra væri að auka útgjöld til að örva efnahagslífið eða lækka skatta og í ljós kom að útgjaldaauki örvar hagkerfið meira en skattalækkun. Ég man ekki nafnið á þeim sem unnu þá rannsókn en ég get örugglega látið viðkomandi fá eintak af henni.

Þess má líka geta að það leyfi sem þingið veitti fólki til að taka út séreignarsparnað sinn hefur verið ígildi þess að ríkið fari í að auka útgjöld og örvi efnahagslífið álíka og sambærileg útgjaldaaukning.

En ég kom hingað upp til að spyrja hv. þingmann út í þær fullyrðingar um að stjórnarandstaðan hafi engar tillögur um hvernig leysa eigi gjaldmiðilsvandann. Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki óeðlilegt að enginn annar möguleiki sé skoðaður en sá að taka upp evru? Þegar ég var í stjórnarliði kallaði ég margoft eftir því að það yrði skoðað hvaða kosti Ísland hefur í gjaldmiðilsmálum og ekki hefur enn birst nein skýrsla eða úttekt á því. Það er ekki mjög trúverðugt að kalla eftir afstöðu til lausnar á gjaldmiðilskreppunni þegar engin slík úttekt liggur fyrir.