Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:16:13 (1303)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að mjög brýnt er að ræða aðra valkosti. Nefndin sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði um mótun nýrrar peningastefnu á því miður ekki að skoða valkostina, ekki samkvæmt erindisbréfinu. Það er þá kannski verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að skoða það.

Hvað varðar hina jákvæðu afstöðu Samfylkingarinnar til Evrópusambandsins er ég farin að óttast það að hún sé eiginlega orðin afsökun fyrir því að skoða ekki aðra möguleika. Ég undrast það til dæmis mjög að ekki var farið í að reyna að fá Norðmenn til að aðstoða okkur strax eftir hrun, í ljósi þess að hingað komu embættismenn til að aðstoða okkur. Það hefði þá kannski tryggt að við hefðum getað staðið vörð um velferðarkerfið frekar en með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þessi jákvæða afstaða til Evrópusambandsins gerir það að verkum að allt of lítil umræða er um neikvæðar hliðar á því að vera með opið samfélag eins og hv. þingmaður ræddi um. Opið samfélag býður líka upp á streymi fjármagns sem er sprottið upp úr jarðvegi spillingar og glæpa. Bankaleyndin hefur m.a. gert það að verkum að eftir að Evrópa varð svona opin flæddi ólöglegt fjármagn á milli landa.