Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:18:22 (1304)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:18]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari að ég óttast ekki þá umræðu þó að ég sé ákveðinnar skoðunar. Ég tel mjög skynsamlegt, og við ættum að hvetja til þess, að slík umræða verði tekin upp. Við ættum að ræða mjög opinskátt aðra valkosti í gjaldmiðilsmálum.

Menn hafa rætt einhliða upptöku annarrar myntar. Ég fæ ekki betur séð en það muni kosta okkur allan gjaldeyrissjóðinn að kaupa upp þá mynt, til að geta veitt almenningi aðgang að nýrri mynt, og við munum þá ekki hafa neinn varasjóð til að fara í, það muni kosta okkur gríðarlega fjármuni. Ef við ætlum að tengja okkur við aðra mynt, hver yrði ávinningurinn af því? Ef þær myntir eru of sveiflukenndar, af hverju er þá ekki hægt að tengja sig við evruna og af hverju göngum við þá ekki í Evrópusambandið og fáum stuðning Evrópska seðlabankans til að standa á bak við evruna svo að við séum ekki berskjölduð gagnvart spákaupmennsku?

Ég ítreka að ég tel skynsamlegt að fara í slíka umræðu. Við getum kallað til allar þær skýrslur sem skrifaðar hafa verið um þessi mál. Ég held að allir stjórnmálaflokkarnir hafi farið í gegnum þá umræðu og komist að þeirri niðurstöðu á einum eða öðrum tíma að skynsamlegast væri að skoða upptöku evru.

Það má kannski snúa þessu þannig: Eins og ég er fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið þá óttast ég það ekki og vil sjá aðildarferlið ganga alla leið. Ég tel að fólk eigi að hafa allar upplýsingar uppi á borðinu þegar það tekur afstöðu. Mér finnst oft eins og þeir sem eru á móti ESB óttist það að málið gangi til enda og fólkið fái að taka afstöðu. Eins er það með myntina, ég óttast ekki að við göngum alla leið og fáum allar upplýsingar upp á borðið. Ég held að upptaka evru sé skynsamlegasta leiðin til að leysa þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Við hv. þingmaður erum sammála um þau vandamál; verðtryggingin, verðbólgan, vextirnir, fjármagnskostnaður, þetta eru óásættanleg vandamál sem við stöndum frammi fyrir og við þurfum að leysa þau með einum eða öðrum hætti. Okkur greinir kannski á um hvernig við eigum að leysa þau en við eigum ekki að skila auðu í þessari umræðu eins og sumir stjórnmálaflokkar hafa gert.