Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:51:50 (1318)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Svona til að byrja með man ég ekki betur en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi miklar efasemdir um fjárfestingu Kínverjans á Grímsstöðum á Fjöllum sem ég hef hins vegar ekki, en bara af því að þetta kom inn í umræðuna (Gripið fram í.) ætla ég að byrja á því að segja það.

Það er ýmislegt sem má segja um þessa þingsályktunartillögu og greinargerðina sem henni fylgir. Sumt má taka undir en annað ekki. Ég tek til dæmis hjartanlega undir að við þurfum að ljúka endurskipulagningu á fjármálum heimilanna. Ég er sammála því að afnema stimpilgjöld á íbúðum til að nefna eitthvað. Ég er sammála því að ríkið endurgreiði fyrirtækjum ígildi tryggingagjalds í tvö ár, svo eitthvað sé nefnt. Vafalaust er eitthvað fleira í þessu sem ég gæti heils hugar tekið undir.

Annað er hins vegar þannig að mann rekur í rogastans. Þá er það fyrst liður a undir fyrirsögninni Fjármál heimilanna. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allar skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur lagt á síðan 2009 verði dregnar til baka.“

Það er sannarlega auðvelt að setja fram tillögur sem þessar ef engar líkur eru á því að menn komist í þá aðstöðu að þurfa að standa við hana. Þegar settar eru fram tillögur til úrlausnar þess vanda sem við því miður stöndum enn þá frammi fyrir verða menn að vera í rauntíma, þeir verða að vera í raunveruleikanum en ekki í gerviheimi.

Það eru ekki nema þrjú ár síðan að sú raunverulega hætta blasti við að ríkissjóður yrði gjaldþrota. Því var forðað. Það hefur ekki verið auðvelt og flest höfum við fundið fyrir því. Við borgum hærri skatta og í sumum greinum hefur þjónusta ríkisins minnkað og við finnum hvert og eitt misjafnlega fyrir því.

Árið 2008 var hallinn á ríkissjóði 216 milljarðar. Hann stefnir í að vera 42 milljarðar á þessu ári og samkvæmt fjárlagafrumvarpi verður hann 18 milljarðar á næsta ári. Þá er búið að seinka því um eitt ár að ríkissjóður verði rekinn hallalaus og aðalástæðan fyrir því er sú að það var talið rétt að reyna að reka hann áfram með halla en á móti reyna að hækka laun fólks í landinu sem vissulega hafa lækkað og kaupmáttur hefur rýrnað og allt er miklu verra en áður var. En núna er einfaldlega ekki svigrúm til að lækka skatta. Ég skal hins vegar sannarlega verða fyrsta manneskjan til að skoða skattlagningu og breytingar á henni þegar svigrúm verður til þess þótt ég vilji alls ekki lofa því að beita mér fyrir því að draga til baka allar þær breytingar sem við höfum gert á skattkerfinu því að sumar held ég að hafi verið býsna skynsamlegar.

Mig langar aðeins að nefna umfjöllun í þessu plaggi um umsvif ríkisins. Á einum stað segir, með leyfi forseta:

„Hið opinbera er orðið allt of umsvifamikið.“

Síðan kemur lýsing á því hvernig aldrei fyrr hafi starfsmenn í einkageiranum staðið undir jafnmörgum opinberum störfum og atvinnulausum. Þetta er vissulega rétt og það er vissulega áhyggjuefni að það var fyrst og fremst starfsfólk í einkageiranum sem varð atvinnulaust. Við erum öll sammála um að atvinnuleysi er okkar versta böl. Auðvitað þurfum við að ráða bót á því. En það hlýtur að vera þannig að ef flestum fækkar í einkageiranum eru færri til að standa undir störfum annars staðar, ef við ætlum að kalla það svo að þeir sem eru í einkageiranum standi beinlínis undir öllu hinu. Auðvitað þurfum við hið opinbera og ýmislegt sem hið opinbera gerir og á að gera en ekki einkageirinn. Að þessu þurfum við að huga.

Svo segir síðar í þessu plaggi, með leyfi forseta:

„Ríkið má ekki verða upphaf og endir alls í lífi okkar. Það gefur stjórnmála- og embættismönnum of mikil völd og líkur aukast á því að skattfé sé ráðstafað með óhagkvæmum hætti eða í óþarfa.“

Svo heldur áfram:

„Því mun Sjálfstæðisflokkurinn á næstu missirum móta sér stefnu sem miðar að því að vinda ofan af opinberum rekstri og hefja aftur til virðingar frelsi einstaklingsins til athafna.“

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort ég á að segja „bragð er að þá barnið finnur“ eða „batnandi manni er best að lifa“. Ég veit ekki hvort á við í þessu, en það er alveg ljóst að á þeim tæpu þremur árum sem ríkisstjórnin hefur starfað hefur henni ekki tekist að þenja út ríkisgeirann. Það var búið og gert. Á árunum 2000–2009 fjölgaði ársverkum í dagvinnu í ráðuneytunum um 22%. Á sama tíma fjölgaði störfum innan ríkisins um 29% og í æðstu stjórnsýslu um 27%. Á sama tíma var fólksfjölgunin í landinu 14,4% og fjölda starfandi fjölgaði um 7,2%. Það er alveg ljóst að sú ríkisstjórn sem núna starfar breytti ekki þessum hlutföllum í því hvernig störf raðast milli einkageirans og opinbera geirans. En ég tek alveg hjartanlega undir það að auðvitað þurfum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Ég er alveg hjartanlega sammála því að það á ekki að færa stjórnmálamönnum eða embættismönnum of mikil völd en í plaggi sem þessu verða hinar sögulegu staðreyndir að koma fram og það má ekki láta eins og allt þetta sé þeirri ríkisstjórn að kenna (Gripið fram í.) sem hefur setið nú í þrjú ár, og ekki einu sinni það.

Síðan langar mig að lokum að minnast aðeins á umfjöllunina um gjaldeyrishöft. Ég verð að segja það vegna þess að það er allt rétt í þessu plaggi hér sem segir um þau vondu áhrif sem gjaldeyrishöft hafa, en maður verður annaðhvort að vera „skidefuld“ eða hafa verið sofandi svolítið lengi til að halda að unnt sé að afnema gjaldeyrishöft hér alveg á næstu árum. Ef maður er „skidefuld“ hugsar maður ekki rökrétt og ef maður er sofandi er maður í draumaheimum. Við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru og mig furðar að stjórnmálaflokkur sem segist fyrst og fremst berjast fyrir hagsmunum fyrirtækjanna skuli ekki segja þetta hátt og skýrt og rétt. Við töluðum um fjárfestingu áðan og það er náttúrlega það helsta í fjárfestingu að fyrirtæki geti gengið að stöðugum gjaldmiðli. Það á við hvort heldur um erlenda eða innlenda fjárfestingu. Þess vegna hljótum við að gera kröfu til þess þegar stjórnarandstaðan leggur fram viðamikið plagg eins og þetta að það sé tekið á þessu grundvallaratriði sem er það að við getum haft hér stöðugan gjaldmiðil í landinu. Það verður ekki gert með íslenskri krónu.