Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 17:22:25 (1322)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[17:22]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er verst að ég er ekki með tölur Hagstofunnar hjá mér, sem ég hefði getað vitnað til til að róa hv. þingmann aðeins varðandi brottflutning héðan af landinu, því að þær tölur sýna að við höfum ýmis dæmi um það bara á síðustu tveimur áratugum að orðið hafi mun meiri brottflutningur af landinu en síðastliðið ár. Við vitum auðvitað og er ástæða til að viðurkenna það að brottflutningur jókst í kjölfar hrunsins og við vitum hverjar ástæðurnar eru.

Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan að við erum ekki að tala bara um einhverjar skattahækkanir. Við erum að tala um skattkerfisbreytingar sem fela það einfaldlega í sér að skattbyrðin er flutt frá lágtekjuhópum og almennu launafólki yfir til þeirra sem hærri hafa tekjurnar og það er mér hugnanlegt að minnsta kosti sem jafnaðarmanni að dreifa byrðum þannig þegar erfiðlega (Forseti hringir.) árar.