Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 18:25:04 (1347)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilega til þess fallið að auka tilfinningahitann hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að nefna togstreituna um forustu flokksins sem nú stendur yfir.

Það sem ég held að hv. þingmaður þurfi að átta sig á þegar hann talar um kyrrstöðu og stöðnun er að það er í kringum 3% hagvöxtur á þessu ári í landinu. Stöðnunin er ekki meiri en svo.

Ég held að hv. þingmaður eigi líka að hugleiða vel skynsemi þess að fara leiðir eins og hann nefnir í sambandi við séreignarlífeyrissparnað og skattlagningu á hann. Ég held að grískar lausnir af þessum toga séu ekki til eftirbreytni. Ég held að við eigum að byggja efnahagslega velferð okkar á skynsamlegri og agaðri ríkisfjármálastefnu eins og við höfum gert. Við eigum að beita hefðbundnum norrænum viðmiðum í tekjuskatti eins og við höfum gert. Við höfum verið að fikra okkur með skattkerfið í átt til þess sem endurspeglar það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. (Forseti hringir.) Það er leiðin sem við eigum að fikra okkur áfram með (Forseti hringir.) og þannig eigum við að byggja efnahagslegan stöðugleika.