Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 18:33:26 (1354)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra telur tillögur okkar grafa undan stöðugleika, stefna að nýju efnahagshruni og loftbóluhagkerfi. Þetta er sú frasakennda gagnrýni sem við heyrum frá ríkisstjórnarflokkunum. Það er ekki mikið um efnislega gagnrýni, það er ekki mikið um ábendingar um hvað sé rangt í tillögum okkar og þeim niðurstöðum sem við komumst að.

Það er mikill slaki í hagkerfinu í dag. Margar vinnufúsar hendur eru án atvinnu og mikið af tækjum standa ónotuð. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála því að eitt af stærstu og mikilvægustu skrefunum til að við náum góðri viðspyrnu frá þeirri stöðu sem er í dag sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir í orkufrekum iðnaði. Allir sem hafa tjáð sig um þetta hafa verið sammála um það. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála því að þetta sé ein af grundvallarforsendum (Forseti hringir.) þess að við náum að byggja upp vænlegt samfélag að nýju.