Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 18:48:35 (1360)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:48]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins eru framsæknar og markvissar. Það er leitt að aðeins einn hæstv. ráðherra skuli hafa fylgst með þessum umræðum og tekið þátt í þeim að hluta í dag, það hefði verið full ástæða til þess að ríkisstjórnin öll hefði tekið þátt í umræðunni þar sem um er að ræða markvissustu tillögur sem lagðar hafa verið fram á undanförnum árum í efnahagsmálum og stöðu landsins. Þessi lota kemur í kjölfar tveggja fyrri tillöguspretta Sjálfstæðisflokksins á síðustu tveimur árum.

Hæstv. ríkisstjórn hefði kannski þurft áfallahjálp hefði hún þurft að sitja undir þessum tillögum og ígrunda þær því að þær eiga að leiða til árangurs og það er eitur í beinum hæstv. ríkisstjórnar.

Talað er um nýtt Ísland. Nýtt Ísland er auðvitað svolítil sýndarmennska. Ísland er Ísland en við getum talað um betra Ísland, við getum talað um að bæta og lagfæra og smúla dekkið. Við getum talað um að við þurfum að gæta þess að liðka til alla þætti sem þjóðfélagið snýst um, liðka til alla koppa og legur en ekki henda sandi í þau hólf eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert í svo mörgum tilvikum á undanförnum árum og hefur leitt það til þess vanda sem við búum við.

Það sem tillögurnar beinast fyrst og fremst að er að hleypa drifkrafti í gangverkið, styrkja heimilin, styrkja og auka atvinnulífið sem er undirstaða alls í þjóðfélagi okkar, setja bönd á bankakerfið sem leikið hefur lausum hala frá hruni í þökk ríkisstjórnarinnar og stýrir til að mynda viðskiptum hundraða fyrirtækja við alls kyns innherjaaðferðum (Gripið fram í.) þar sem viðskiptum er stýrt á markaði, í þjónustu og verkefni í þágu þeirra sem njóta velvildar bankanna. Það er hörmulegt í samfélagi okkar.

Tillögur beinast gegn skattahækkunum, gegn hátekjuskattinum sem dynur yfir. Síðast í dag ræddi ég við starfsstúlku í banka sem hafði 238 þús. kr. í mánaðarlaun og er komin í hátekjuskatt. Fólk verður náttúrlega orðlaust undir þessum kringumstæðum og lamast. Þessar tillögur eru til þess að lina það frost sem er í fjárfestingum í landinu. Það er til að hætta því einelti sem hæstv. ríkisstjórn hefur stundað jafnvel í heilu landshlutunum þar sem staðan er erfiðust og eru Suðurnesin gott dæmi um það. Það er náttúrlega ekki boðlegt. Okkur þætti það ekki einu sinni boðlegt í frumstæðustu ríkjum Afríku þar sem ýmislegt er þó þekkt.

Tillögur okkar eru til að koma í veg fyrir að hótanir einstaklinga ráði ferð í ríkisstjórn varðandi virkjunarkosti, stórvirka möguleika og tækifæri í íslensku þjóðlífi, sem er auðvitað ekki boðlegt. Tillögur okkar eru til að verja og sækja fram fyrir svikin heimili. Sex þúsund Íslendingar hafa flúið Ísland vegna dugleysis ríkisstjórnarinnar og atvinnuleysis. Í dag sagði hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir að það væri ekki mikið mál þótt það færi slatti af fólki úr landi. Sex þúsund Íslendingar, það er eins og allir íbúar Húsavíkur, Siglufjarðar og Sauðárkróks hyrfu frá Íslandi eða allir íbúar Vestfjarða. Það er ekki mikið mál fyrir hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, samfylkingarmann.

Við höfum nú séð það svartara, sagði hv. þingmaður. Það fólk, sex þúsund Íslendingar, sem býr núna erlendis gegn vilja sínum hefur ekki séð það svartara og það er það sem málið á að snúast um, það er það sem þessar tillögur eiga gera, að skapa grundvöll til að fólk komi aftur til Íslands og geti unnið á heimavelli, lifað á heimavelli og starfað í samfélagi okkar á eðlilegan hátt. Jafnvel er sjávarútvegurinn gerður að blóraböggli og kom það til að mynda fram í ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. En sjávarútvegurinn tryggir einmitt að við stöndum þó ekki verr en raun ber vitni í þeirri stöðu sem verið hefur.

Frostið í fjárfestingum. Aðeins í einni verstöð, stærstu verstöð landsbyggðarinnar, Vestmannaeyjum, bíða í frosti fjárfestingar upp á marga milljarða. Meira en 5 milljarðar kr. fjárfestingar bíða sem menn leggja ekki í vegna þess að ríkisstjórnin heldur öllum sjávarútvegsþáttunum í óvissu, óvissu sem ekki er brúkleg og ekki boðleg, hún er alvitlaus og það er það versta. Menn getur greint á um marga hluti en þegar um er að ræða hringavitleysu veit enginn sitt rjúkandi ráð og þá verður helkuldi í því sem gera þarf bæði í endurnýjun og endurbótum.

Virkjanirnar bíða af því að hótanir einstaklinga sem styðja ríkisstjórnina ráða ferð. Þannig gengur það fyrir sig, það er doði í öllu þjóðfélaginu, ótti í fólki, óvissa og vanlíðan og það er ekki það sem við eigum að leggja áherslu á.

Við höfum lagt áherslu á að skapa atvinnu til að eyða ekki þessum 80 milljörðum í atvinnuleysisbætur. Það er engin smáupphæð, 80 milljarðar kr. Við þurfum að eyða sköttunum sem ekkert hafa gert nema illt fyrir heimili og atvinnulíf og þjóðfélagið í heild því að það eru falspeningar sem sóttir eru við þröngar aðstæður. Við viljum knýja fram upplýsingar um þátt bankanna í öllum þeim aðgerðum sem deilt hefur verið og þrefað um. Það liggur ekki enn þá fyrir og það kemur ekki einu sinni jafnræði eða almenn sanngirni út úr því í viðskiptum banka við viðskiptavini sína og þjóðfélagið út á við og inn á við.

Við viljum tryggja að það sé valkostur að hafa verðtryggingu eða ekki. Það er jafnvægi. Við viljum tryggja að lítil og meðalstór fyrirtæki fái að njóta starfsgetu sinnar, reynslu og leikgleði. Við viljum taka fyrirtækin úr höndum bankanna, lífeyrissjóðanna og annarra sem eru með beisli á hundruðum fyrirtækja í landinu og stýra þannig drifkrafti inn í samfélagið sem á að skila okkur áfram en ekki aftur á bak — áfram en ekki aftur á bak.