Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 19:08:59 (1362)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[19:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið góð umræða í dag. Haldnar hafa verið 14 ræður og mér sýnist að fulltrúar allra flokka nema Vinstri grænna hafi tekið þátt í andsvörum og annað slíkt. Enginn þingmaður eða ráðherra Vinstri grænna hefur hins vegar sést í dag. Það er sennilega til marks um hversu alvarlega þeir taka þau vandamál sem við glímum við í íslensku þjóðfélagi í dag.

Jafnframt ber að þakka það að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur setið undir mestallri umræðunni og tekið þátt í henni. Ef maður skoðar hver er rauði þráðurinn í ræðum er ljóst að Samfylkingin hefur fengið línu um að bora í hugmyndir um skattalækkanir. Það hefur verið samfelldur og samkvæmur málflutningurinn þar og það er svo sem ágætt. En það er eitt sem er leiðinlegt sem hefur komið upp í dag en svo virðist vera sem sumir þingmenn, og þá dettur mér í hug hv. þm. Magnús Orri Schram, og að einhverju leyti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, hafi ekki lesið efnahagstillögurnar. Hv. þm. Magnús Orri Schram hélt því fram að við værum að skila auðu í gjaldmiðlamálum en svo kom í ljós að hér eru fjórar blaðsíður sem fjalla nákvæmlega um það. Jafnframt kom í ljós að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hélt því fram að þetta væru einhvers konar bólutillögur og enginn sæi fyrir áhrif á efnahagslífið, hvert þetta gæti leitt okkur. En hann hefur þá sennilega ekki lesið bls. 25–28 þar sem birtar eru niðurstöður úr þjóðhagslíkani sem sýna nákvæmlega fram á langtímaáhrifin af þessu, skammtíma- og langtímaáhrifin. En auðvitað er það þjóðhagslíkan og eins og við vitum er spágeta þeirra svona og svona getum við sagt.

Þessi tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf gengur að stórum hluta út á það að bæta tekjuhlið heimila og fyrirtækja. Allt of miklum krafti og allt of mikilli athygli hefur verið beint að skuldahlið þessara tveggja meginstoða íslensks efnahagslífs. Hér er í fyrsta skiptið farið að tala um það að brýnasta verkefnið hjá okkur sé að auka tekjurnar. Ráðstöfunartekjur hafa fallið um 30% á síðustu tveimur árum, bæði vegna þess að vinna hefur dregist saman, vegna atvinnuleysis og ekki síst vegna skattahækkana ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur gert yfir 100 breytingar á skattkerfinu og innleitt nýja skatta síðan hún tók við. Við mótmælum þessu og segjum að grunnurinn að því að íslenskt efnahagslíf, heimili og fyrirtæki, verði heilbrigt á ný sé að bæta ráðstöfunartekjurnar. Það er tekjuhliðin.

Þetta er í þriðja skipti sem við sjálfstæðismenn leggjum fram efnahagstillögur okkar á þessu kjörtímabili og þær viðamestu. Það er ánægjulegt hvað þær hafa hlotið góðan hljómgrunn. Þrátt fyrir að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi verið gagnrýnir á einhverja þætti hefur þessu almennt verið tekið vel. Og er það vel.

Nú verður þessu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem unnið verður úr tillögunum. En það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þetta er ekki jólatré þar sem maður tekur þær kúlur sem manni finnast fallegar heldur er þetta heildstætt plan. Ekki er hægt að taka eitthvað eitt út úr þessu, framkvæma það, þetta er plan sem verður að framkvæma allt í einu.