Tjón af manngerðum jarðskjálfta

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 15:43:47 (1878)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður rakti hefur orðið vart jarðhræringa sem menn kenna niðurdælingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er almennt þekkt í vísindasamfélaginu að athafnir mannsins geta haft áhrif á jarðskjálftavirkni og þá einkanlega við niðurdælingu vökva í jarðskorpuna, dælingu vökva úr jarðskorpunni, kolavinnslu, stíflugerð og þyngsl á jarðfræðilega viðkvæmum stöðum. Hugtakið manngerður jarðskjálfti er ekki skilgreint í lögum um Viðlagatryggingu Íslands.

Hvað varðar þá spurningu hvort það sé hlutverk Viðlagatryggingar að bæta tjón á mannvirkjum sem hlotist geta af jarðskjálfta sem til kominn er vegna mannlegra athafna er því til að svara að almenna reglan í vátryggingarétti er sú að vátryggjanlegt sé það tjón eitt sem sé þess eðlis að líkur á tjónsatburði séu háðar tilviljun. Í því felst þá að fyrirsjáanlegt tjón, hvort sem er af manna völdum eða ekki, sé ekki vátryggjanlegt. Viðlagatrygging Íslands er vátryggingafélag og með starfsleyfi sem slíkt. Það er rétt að hafa þann bakgrunn málsins í huga.

Ef Viðlagatryggingu væri gert að bæta fyrirsjáanlegt tjón af manna völdum væri því verið að breyta eðli viðlagatryggingarinnar og breyta henni þar með úr vátryggjanda með endurtryggingasamninga í einhvers konar opinberan viðlagasjóð. Það er því mín skoðun, og ég segi þetta til svars við fyrirspurninni, að þeir sem verða fyrir tjóni vegna manngerðra jarðskjálfta, eins og í tilviki þeirra sem hafa orðið í kjölfar niðurdælinga Orkuveitunnar, eigi að beina kröfum að þeim sem tjóninu valda ef menn verða fyrir tjóni vegna þessara jarðskjálfta. Þá eiga að mínu viti hinar almennu reglur skaðabótaréttar við, tjónvaldur verður að bæta tjón sitt. Sá sem veldur tjóninu hlýtur að hafa af því bótaskyldu og það væri þá Orkuveitan sem stendur fyrir niðurdælingunum sem væri ábyrg fyrir því að bæta mönnum tjón þeirra. Það er þá auðvitað háð venjubundnum reglum skaðabótaréttarins um að það takist að sanna orsakasamband og slíkt en með öllum hefðbundnum fyrirvörum um það verður ekki annað séð en að það sé tjónvaldsins að bæta tjónið í þessu tilviki sem öðrum. Eftir atvikum er það svo verkefni stjórnenda þess fyrirtækis að afla sér ábyrgðartryggingar til að mæta bótakröfum sem upp kunna að koma í hefðbundinni starfsemi fyrirtækisins. Það er síðan atriði sem vert er að hafa í huga í framtíðinni þegar kemur að nýtingu jarðvarma í ríkari mæli. Auðvitað vitum við að við erum að feta að verulegu leyti út á nýjar slóðir í nýtingu jarðvarma í jafnmiklum mæli og við erum nú að gera hér á landi, í ólíku jarðfræðilegu umhverfi. Þetta er því áhætta sem verður að taka tillit til við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í framtíðinni, hættu á jarðhræringum í kjölfar nýtingarinnar og þess að haga slíkum neikvæðum afleiðingum nýtingarinnar með þeim hætti að hættan sé í lágmarki.