Tjón af manngerðum jarðskjálfta

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 15:50:54 (1881)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að höggva í sama knérunn og þeir þingmenn sem töluðu á undan mér. Ég held að menn verði einfaldlega að horfast í augu við málin eins og þau eru, þegar fólk verður fyrir tjóni af völdum skjálfta er fyrsta hugsunin ekki um orsökina heldur verður kerfið einfaldlega að vera þannig búið að það leysi strax úr vanda og viðfangsefnum þeirra sem lenda í þeim hörmungum að verða fyrir tjóni vegna jarðskjálfta. Ég tel að þetta sé frekar mál sem Viðlagatrygging getur tekið að sér að leysa við Orkuveituna, a.m.k. að þetta verði ekki þannig að fólk þurfi að fara frá Heródesi til Pílatusar til að fá lausn mála sinna vegna þessara skjálfta. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hlýða á þennan tón.

Ég taldi rétt að koma hingað upp og láta ekki eingöngu þingmenn Suðurkjördæmis tala um þetta mál því að það skiptir okkur öll máli. Ef tjón verður á einum stað á landinu eigum við öll að hafa áhuga á því að slík mál verði leyst. Ég hvet hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til að hlýða á þann tón sem kemur úr ræðustól Alþingis um það hvernig beri að leysa úr tjóni vegna skjálfta, manngerðra eða ekki.