Tjón af manngerðum jarðskjálfta

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 15:54:25 (1883)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir og ítreka að lokum að það skiptir auðvitað miklu máli að þeir sem valda tjóni á annarra eigum bæti það. Ég ætlast til þess að orkufyrirtæki sem hafa það sem hluta af starfsemi sinni að dæla niður vökva bæti fólki tjón sem hægt er að rekja til þeirrar starfsemi. Það tjón þarf að vera rekjanlegt og sannanlegt.

Orkuveita Reykjavíkur er í opinberri eigu og eðlilegt er að gera kröfur til slíkra fyrirtækja um að þau hlutist til um aðferðir til að skera fljótt úr um það hvort þetta eru skjálftar sem rekja megi til starfsemi fyrirtækisins eða ekki. Ef ekki er hægt að rekja þetta til starfsemi fyrirtækisins blasir við sú spurning hvort við eigum þá að breyta lögum um Bjargráðasjóð og leyfa honum að bæta með einhverjum hætti tjón sem svona er til orðið. Ég held að það sé ófært að gera það hvað varðar Viðlagatryggingu vegna þess að hún getur, eins og ég segi, ekki bætt fyrirsjáanlegt tjón þar sem það er ekki vátryggjanlegt.

Það sem skiptir mestu máli er í fyrsta lagi að orkufyrirtækin geri það sem til þeirra friðar heyrir og að þau mæti fólki af jákvæðni og með uppbyggilegum hætti, komi með tillögur um einfalda aðferðafræði, t.d. að sameinast um að fá dómkvadda matsmenn til að kveða upp úr um það hvort skjálftana megi rekja til niðurdælinga eða ekki. Það gæti verið framlag af hálfu orkufyrirtækjanna að bjóðast einfaldlega til að fjármagna það að fá dómkvadda matsmenn í það verkefni. Að fenginni niðurstöðu um það blasir þá við að ef ekki er hægt að finna (Forseti hringir.) ábyrgð hjá orkufyrirtækjunum þarf að finna aðrar leiðir til að hið opinbera geti komið að stuðningi við fólk sem á um sárt að binda vegna slíkra skjálfta.