Hækkun fargjalda Herjólfs

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 16:53:50 (1905)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

hækkun fargjalda Herjólfs.

234. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans og hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna.

Ég sakna þess hins vegar að ráðherrann skyldi ekki tjá sig frekar um það hver afstaða hans væri til þess sem ég fór í gegnum og áhrif þessara miklu hækkana á lífsgæði Eyjamanna og það óöryggi sem bæði ég og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir ræddum um.

Þegar ég setti þetta inn í excel-skjal stoppaði ég nánast því að prósenturnar voru svo ofboðslega háar og upphæðirnar. Maður sér það í hendi sér að fólk með meðaltekjur fer ekki sérstaklega oft upp á land þegar það kostar með afsláttarkorti fyrir fjögurra manna fjölskyldu, jafnvel með börn sem ferðast frítt — við þekkjum náttúrlega alveg hvernig sjóleiðin er á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og því er nauðsynlegt að taka klefa ef fólk er með börn — hátt í 90 þús. kr. ef fara á hverja helgi. Ég hef verið að fá nótur og kvittanir fyrir því og horft á vefnum á hvað þarf raunverulega að borga fyrir að fara þarna á milli.

Ég held að við gerum okkur svo sem grein fyrir því að staðan hefur verið erfið. Það hafa verið hækkanir á rekstrarkostnaði. En þeir erfiðleikar sem voru áður notaðir sem rökstuðningur fyrir að fresta þessum hækkunum eru enn fyrir hendi. Það er enn þessi óvissa. Þegar fólk neyðist til þess að fara upp á land, t.d. til að fara til læknis eða jafnvel til að versla fyrir jólin, á það erfitt með að gera áætlanir vegna þess að það veit aldrei hver kostnaðurinn verður. Að sama skapi hafa miklar kvartanir borist yfir því að (Forseti hringir.) sérstakt breytingagjald skuli vera rukkað við hverja einustu breytingu. Þetta er ákvörðun sem stofnanir sem tilheyra ráðherranum taka.