Landsvirkjun o.fl.

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 19:13:12 (2325)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á fernum lögum: Í fyrsta lagi lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, í öðru lagi lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, í þriðja lagi raforkulögum, nr. 65/2003, og í fjórða lagi lögum nr. 19/2011, um breytingu á raforkulögum, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar á tilgreindum lögum á sviði orkumála sem eiga allar það sammerkt að lúta að erfiðri stöðu á fjármálamörkuðum gagnvart orkufyrirtækjum.

Frumvarpið er þríþætt. Í fyrsta lagi er með frumvarpi þessu lagðar til breytingar sem eru þó aðallega til þess að tryggja skýrleika og snúa að hugtakabreytingu í tveimur lagabálkum. Þær breytingar má rekja til þess að á 139. löggjafarþingi voru gerðar breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, og lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Sneru þessar breytingar að eigendaábyrgð Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur og var kveðið á um að eigendaábyrgðin næði til lánaskuldbindinga fyrirtækjanna í stað þess að vera ótakmörkuð eins og verið hafði.

Með frumvarpinu er í I. og II. kafla lagt til að í tengslum við eigendaábyrgðina verði notað hugtakið fjármálagerningur eins og það er skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2008, í stað hugtaksins lánaskuldbindingar. Þetta þýðir að eigendaábyrgðin nær til fjárhagslegra skuldbindinga sem teljast vera fjármálagerningar. Ástæða þessa er að óvissa hefur verið um við hvað er nákvæmlega átt með hugtakinu lánaskuldbinding og hefur því orðalag núgildandi laga skapað óvissu um hvort eigendum Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur sé heimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar sem ekki byggja á lánasamningum, t.d. afleiðusamninga og skuldabréfaútgáfu. Við þessum vanda er brugðist með frumvarpinu og óvissu eytt.

Taka ber þó fram hér að lög nr. 42/1983, um Landsvirkjun, eru á forræði fjármálaráðherra, en samkomulag varð um það millum ráðuneytanna að iðnaðarráðherra mundi flytja þessa breytingu á lögum um Landsvirkjun samhliða öðrum þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frumvarpi og eru á forræði iðnaðarráðherra og snúa að orkufyrirtækjunum.

Eins og fram hefur komið í máli mínu er undirliggjandi ástæða framlagningarinnar sú sama, þ.e. á þessum fernum lögum.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lögð til breyting er varðar breytingu sem gerð var á raforkulögum síðastliðið vor með lögum nr. 19/2011. Þar var kveðið á um að frá og með 1. janúar 2015 skyldi flutningsfyrirtækið Landsnet hf. vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga. Jafnframt skyldi nefnd skila tillögum fyrir lok árs 2012 um hvernig standa ætti að kaupum ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækjanna í Landsneti ehf. Í ljós hefur komið að það að kveðið sé á um tiltekna dagsetningu í raforkulögum skapar ákveðinn vanda fyrir orkufyrirtækin, sem eigendur Landsnets ehf. Ákvæði í lánasamningum Landsvirkjunar kveða t.d. á um að Landsvirkjun sé óheimilt að ráðstafa eða selja meiri háttar eignir sínar án samþykkis lánveitenda. Fáist ekki samþykki lánveitenda getur það leitt til gjaldfellingar lánasamninga fyrirtækisins.

Vegna þrenginga á fjármálamörkuðum er mjög mikilvægt að engin óvissa skapist um fjárhag orkufyrirtækjanna. Þar af leiðandi er með frumvarpinu lagt til að áfram verði kveðið á um það í raforkulögum að flutningsfyrirtæki skuli vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila þannig að ekki verði með pósitífum hætti kveðið á um beint eignarhald ríkis eða sveitarfélaga frá og með þessari tilteknu dagsetningu, þ.e. 1. janúar 2015. Áfram verði hins vegar unnið að því að fara yfir framtíðarfyrirkomulag eignarhaldsins í kjölfar tillagna nefndar þess efnis, samanber ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið sem á að skila í lok árs 2012.

Þetta þýðir ekki að það sé ekki vilji til þess að Landsnet verði í beinni eigu ríkis eða sveitarfélaga, heldur snýst þetta eingöngu um það að við setjum okkur ekki dagsetningu sem erfitt er að standa við eða getur sett umhverfi fyrirtækisins í óvissu. Fyrirséð er að þungt geti orðið að standa við þessa dagsetningu. Við þurfum að taka mið af því fjármálaumhverfi sem við búum við núna og efnahagsaðstæður á alþjóðavísu og setja okkur raunhæf markmið og horfa fyrst og fremst til þess að nefndin skili af sér í lok næsta árs. Í framhaldi af því getum við sett okkur dagsetningar sem við teljum raunhæfar í þessu efni. Enn er því fullur vilji til að af þessu verði.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að framkvæmd ákvæða í 2.–4. málslið 1. mgr. 14. gr. raforkulaga, um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja, verði frestað um tvö ár til viðbótar, þ.e. til 1. janúar 2014. Þetta er í samræmi við beiðni eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur til iðnaðarráðuneytisins í bréfi sem er dagsett þann 8. nóvember síðastliðinn þar sem fram kemur að verulegir fjárhagslegir hagsmunir séu í húfi við uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur er snúa að skattamálum og samskiptum við lánardrottna fyrirtækisins. Jafnframt kemur þar fram, og það eru svo sem engar fréttir fyrir þá sem hér sitja, að enn einkennir almennur órói fjármálakerfi heimsins og því þarf nánara samráð við stjórnvöld og lánveitendur vegna uppskiptingar fyrirtækisins. Þar af leiðandi er óskað eftir viðbótarfresti.

Þess ber hins vegar að geta að innan Orkuveitu Reykjavíkur er unnið að uppskiptingu samkeppnis- og sérleyfisþátta. Menn þurfa lengri tíma.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við fjármálaráðuneytið og orkufyrirtækin. Í kostnaðarumsögn með frumvarpinu kemur fram að lögfesting þess muni ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs eða heildarfjárhæð þeirra skuldbindinga Landsvirkjunar sem ríkissjóður ábyrgist nú þegar.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.