Landsvirkjun o.fl.

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 19:24:34 (2328)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var reyndar ekki alveg tæmandi, en það fást vonandi upplýsingar í nefndinni sem fær frumvarpið til skoðunar.

Ég vil spyrja frekar út í nefnd sem sagt er að eigi að fjalla um eigendastefnu flutningsfyrirtækisins sem þessi fyrirtæki eiga. Stendur til að einkavæða eitthvað í orkugeiranum, sem mundi gleðja mitt hjarta, og jafnvel að einkavæða orkufyrirtækin sjálf, sem ég hef stungið upp á hérna, að arðstraumurinn yrði seldur í 40 ár af þessum fyrirtækjum og svo aftur og aftur? Það mundi heldur betur hressa upp á ríkissjóð og gæti jafnvel gert hann nánast skuldlausan ef vel yrði að staðið. Öðruvísi mér áður brá. Þjóðin á náttúrlega gífurlegar eignir í þessum orkufyrirtækjum. Ég gleðst yfir því ef menn ætla á einhvern máta að selja þessi fyrirtæki.