Landsvirkjun o.fl.

Miðvikudaginn 30. nóvember 2011, kl. 19:25:58 (2329)


140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

Landsvirkjun o.fl.

318. mál
[19:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins gaman og ég hef af því að gleðja hv. þingmann verð ég að hryggja hann í þetta sinn vegna þess að sú nefnd sem fjallað er um í þessu frumvarpi er eingöngu til áréttingar á bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var með breytingum á raforkulögum síðastliðið vor. Nefndin á að hefja skoðun á því með hvaða hætti eignarhaldi verði fyrirkomið á Landsneti í því augnamiði að ríki og sveitarfélög eignist fyrirtækið beint til lengri tíma. Í dag eiga ríki og sveitarfélög fyrirtækið í gegnum orkufyrirtækin sem fara með eignarhald og Landsvirkjun með mikinn meiri hluta. Markmiðið er að þetta mikilvæga fyrirtæki sem Landsnet er verði í beinni eigu ríkis og sveitarfélaga.

Einkavæðing á fyrirtækjum í eigu ríkisins stendur ekki fyrir dyrum, þ.e. orkufyrirtækjum. Við teljum hins vegar að það sé mjög mikilvægt að marka þeim skýra stefnu og að eigendastefnan taki mið af því að arðsemi framkvæmda verði hámörkuð eins og kostur gefst til að við náum því markmiði sem hv. þingmaður reifaði hér og lét sig dreyma um, sem er skuldlaus ríkissjóður í náinni framtíð. Það tekst með því að ná sem mestum arði út úr auðlindunum í gegnum framkvæmdir hjá þessu mikilvæga ríkisfyrirtæki, Landsvirkjun. Þannig getum við náð sama markmiði. Ég vona að við hv. þingmaður verðum a.m.k. sammála um að slík eigendastefna og slíkar ákvarðanir séu til góðs.