Sjúkratryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 02. desember 2011, kl. 15:12:24 (2419)


140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:12]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tæpir á nokkrum málum sem er mjög mikilvægt að ræða í framhaldinu, í fyrsta lagi þessu með að þarna tökum við aðeins á lyfjunum en það hefði þurft að taka allan lækniskostnaðinn og reyna að jafna hann með einhverjum öðrum hætti en er í dag. Það er alveg rétt sem hefur komið fram, menn borga oft verulega háar upphæðir fyrir heimsóknir til sérgreinalækna og vaxandi dagdeildarþjónustu. Það getur vel verið, eins og hv. þingmaður kemur að, að þar geti orðið mismunun. Það ætti þó í sjálfu sér ekki endilega að færast til, það jafnast á alla í lyfjunum. Svo er annað verkefni sem verður að fara í í framhaldinu, þ.e. að jafna kostnaðinn hvað varðar aðra sjúkrahúsþjónustu. Það þarf að fara heildstætt yfir þetta. Þetta hefur verið gert. Hv. þingmaður sat meðal annars í nefnd sem vann að þessu á sínum tíma og sú vinna er alls ekki töpuð. Menn hafa bara talið mikilvægt að taka þetta skref til að byrja með, hitt er að nokkru leyti flóknara.

Varðandi það hvenær tímabil hjá hverjum og einum hefst er gildistaka frumvarpsins að vísu 1. janúar en síðan er spurningin hvenær búið verður að gera kerfið tilbúið eins og kom fram í ræðu minni. Það tekur sex mánuði að undirbúa það og þá verður það auglýst með góðum fyrirvara. Þess vegna er talað um á 12 mánaða tímabili en ekki á árinu, þetta miðast ekki við áramót heldur það hvenær lyfjataka hefst. Þegar menn byrja á lyfjum jafnast það næstu 12 mánuðina upp að ákveðnu þaki.

Hv. þingmaður tæpti líka á öðru sem er viðkvæmt að sumu leyti, því að ákveðnir sjúkdómar voru flokkaðir á sínum tíma með öðrum hætti en aðrir, t.d. krabbameinssjúkdómar. Þess vegna hafa þeir verið með ókeypis lyf. Hið sama hefur gilt um sykursjúka, en þar er einmitt verið að leiðrétta á milli flokka. Það er ekki eðlilegt að gera mun á því og gigtarsjúkdómum, hjartasjúkdómum og öðru slíku. Þetta kemur misjafnlega niður, en þakið á að tryggja að allir ráði við þetta.