Sjúkratryggingar og lyfjalög

Föstudaginn 02. desember 2011, kl. 15:16:54 (2421)


140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[15:16]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður segir, það þarf að fara yfir þessar dagsetningar og nákvæmlega hvernig innleiðingin verður. Ég treysti á að velferðarnefnd geri það. Ég veit að málið er í góðum höndum hjá hv. þingmanni og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur, sem þekkir málið mjög vel enda er það búið að vera lengi í vinnslu og er núna flutt í annað skipti í þinginu.

Það hefur verið rætt um fjölskyldugjöld. Ég held að það sé líka atriði sem velferðarnefnd eigi að skoða, þ.e. hvort það sé ástæða til að tryggja einhver heildarútgjöld á fjölskyldu sem slíka eða hvort þarna er fyrst og fremst reynt að hjálpa barnafjölskyldum sérstaklega með því að telja öll börnin sem eru á sama heimilisfangi sem einn aðila ef þau eru undir 18 ára aldri. Ég held að það sé mikið réttlætismál. Það má segja að fleira í frumvarpinu rétti stöðu barna. Ef sýklalyfin bætast við eru börnin þeir aðilar sem nýta best sýklalyfin og borga þau að fullu í dag. Ég held að þetta séu réttar ábendingar. Það er full ástæða til að skoða þetta vegna þess að hugmyndin er að reyna að verja fjölskyldur gegn háum útgjöldum. Í frumvarpinu er sérstaklega tekið á börnunum og þau látin hafa forgang í því ljósi að það getur orðið býsna mikill kostnaður ef þrjú börn fara öll upp í 45 þús. kr. markið til viðbótar við tvo foreldra. Ef börnin eru yngri en 18 ára eru það í mesta lagi þrír sem greiða.

Það er full ástæða til að skoða tímasetninguna, þ.e. hvenær innleiðingin kemur. Þetta gildir sérstaklega um þá sem eru í stöðugri notkun og munu koma inn af fullum þunga frá þeirri dagsetningu sem kemur. Vonandi þurfa flestir í landinu ekki að borga neitt í lyfjakostnað, allir þeir sem við vitum ekki hvenær koma inn á árinu. Auðvitað þurfa margir sáralítið að borga í lyfjakostnað og þannig verður það áfram. Það borgar enginn fyrir lyf sem hann notar ekki.