Byggðastofnun

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 12:33:00 (2857)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er um að ræða lýtur að því að leggja það til að ákvarðanir sem Byggðastofnun tekur, sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og síðan umsýslu tengdum þeim, sé á endanlegu stjórnsýslustigi hjá stofnuninni, það sé með öðrum orðum ekki hægt að kæra þessar ákvarðanir til æðra stjórnsýslustigs sem í þessu tilviki er iðnaðarráðuneytið.

Nú hef ég ekki endanlega mótað mér skoðun á þessu. Ég skil alveg þau rök sem hér eru að baki, vísað er til þess í greinargerð að kannski sé ekki við því að búast að fagráðuneyti geti með eðlilegum hætti sett sig ofan í hvert einasta mál sem kynni að rata á hennar fjörur og taka sjálfstæða ákvörðun það hvort rétt hafi verið að málum staðið af hálfu stofnunarinnar.

Nú geri ég ráð fyrir því að það sé dálítið erfitt í sjálfu sér fyrir fagráðuneyti að taka afstöðu til svona mála. Við skulum segja að maður sæki um lán að einhverri tiltekinni upphæð og verði síðan óánægður með afgreiðslu Byggðastofnunar og kæri það til iðnaðarráðuneytis. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvað það sé í lánveitingunni sem gæti kallað á endurskoðun ráðuneytis. Er það til dæmis það að ekki hafi verið með lögformlegum eða réttum hætti staðið að málum? Er það þannig að viðkomandi lánsbeiðanda hafi ekki verið gerð grein fyrir annmörkum sem á málinu væru til að hann gæti átt möguleika á því að rétta sinn hlut eða gæti það einfaldlega snúist um mat ráðuneytisins á málinu efnislega að öðru leyti?

Ég skil vel að þetta getur auðvitað verið ákveðið flækjustig en í mínum huga kom upp sú spurning, og ég vildi kannski beina því til hæstv. ráðherra, ef hún hefði svör við því, hvort málum sem Byggðastofnun hefur afgreitt frá sér hefði í miklum mæli verið vísað til úrlausnar í iðnaðarráðuneytinu, þá er ég að vísa til lánveitinga, veitingar ábyrgða og annarra slíkra skyldra hluta.

Það væri út af fyrir sig fróðlegt að vitað það hvort þetta hafi verið mikil nauð í ráðuneytinu að sinna slíkum erindum. Ég þykist muna á mínum ferli að hafa heyrt um einhver slík mál sem hafi ratað inn á borð ráðuneytisins og ráðherrans þar sem einhverjir sem áttu samskipti og viðskipti við Byggðastofnun voru ekki ánægðir með þau samskipti og viðskipti en einhvern veginn býður mér í grun að þetta sé ekki í miklum mæli.

Mér finnst það út af fyrir sig vera sannfærandi rök að segja sem svo að mál af þessu tagi eigi að koma til endanlegrar úrlausnar hjá stofnuninni eins og er með flestar aðrar fjármálastofnanir. Við erum með Landsbanka Íslands sem er sjálfstætt fyrirtæki en nánast eingöngu í eigu ríkisins og svo er Íbúðalánasjóður o.s.frv. Mér er ekki kunnugt um að lánsbeiðni hjá Íbúðalánasjóði endi á borði hæstv. velferðarráðherra þannig að ég skil alveg það sem hér er um að ræða. Það er líka bent á að um stofnunina gildi sérstök lög. Stofnunin er líka lánafyrirtæki sem lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins eins og við vitum þannig að út af fyrir sig má segja að þar með sé búið að skapa þann ramma sem ætti að duga fyrir þessa starfsemi stofnunarinnar. Það finnst mér vera alveg sannfærandi rök.

En það var annað sem kom upp í huga minn þegar ég velti þessu fyrir mér. Nú er það þannig að um Byggðastofnun segir í 1. gr. laga að hún sé það sem kallað er sérstök stofnun. Þá er ekki verið að vísa til þess að hún sé eitthvað alveg spes heldur er þetta lagalegt hugtak sem við þekkjum. Sérstakar stofnanir eru stofnanir sem starfa býsna sjálfstætt en heyra þó undir tiltekinn ráðherra. Við höfum síðan annað hugtak í þessu sambandi sem er sjálfstæð ríkisstofnun. Hún vísar til annarrar hugsunar og annars skilnings á stöðu þessarar stofnunar.

Mig rekur minni til þess þegar verið var að breyta þessu fyrirkomulagi stofnunarinnar að hún var á sínum tíma sjálfstæð ríkisstofnun. Ákvörðun var hins vegar tekin um það, með lögum frá Alþingi 1999, að breyta stofnuninni þannig að hún yrði ekki lengur sjálfstæð stofnun heldur sérstök stofnun og heyrði þá undir iðnaðarráðherra, hafði raunar áður heyrt undir forsætisráðherra og hefur frá árinu 1999 heyrt undir iðnaðarráðherra og verið sérstök stofnun. Af því að hún hefur verið sérstök stofnun þá hefur einmitt þetta kæruferli myndast varðandi mögulegar lánveitingar, ábyrgðir, umsýslu og þess háttar og svo auðvitað ýmsar aðrar ákvarðanir sem stofnunin tekur. Í þessu frumvarpi er ekki verið að gera tillögu um breytingu á þeim þætti málsins heldur eingöngu því sem lýtur að þessari fjármálalegu umsýslu.

Ég rifjaði þetta upp með því að lesa mig í gegnum umræðurnar sem áttu sér stað á árinu 1999. Þær voru að mörgu leyti dálítið skrautlegar og ýmislegt stórt var látið falla í sambandi við þessar breytingar, ekki síst frá núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Hann hefði örugglega haft gaman af því ef ég færi í það að rifja þessar umræður upp. Hæstv. ráðherra gerði sér töluverðan mat úr því að nú væri verið að breyta Byggðastofnun úr sjálfstæðri stofnun í eigu íslenska ríkisins, sem heyrði undir forsætisráðherra, í sérstaka stofnun. Hæstv. ráðherra segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Og það má til sanns vegar færa, þetta verður afar sérstök stofnun ef þessar breytingar verða gerðar. Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins …“

Hann fer síðan að fabúlera mjög með þetta, hvernig í pottinn hafi verið búið og alltaf hafi þetta verið ráð sem runnin séu undan rifjum framsóknarmanna. Hann segir svo í lok þessa parts úr ræðu sinni, með leyfi virðulegs forseta:

„Nei, heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra þurfti það að vera, og það hefur þeim framsóknarmönnunum dottið í hug að læða inn, og síðan á þetta að vera sérstök stofnun í staðinn fyrir sjálfstæð stofnun.“

Í framsöguræðu hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, um þetta segir hann hluti sem mér finnst eiga dálítið erindi í þessa umræðu núna, með leyfi virðulegs forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggðastofnun heyri undir iðnaðarráðherra og að komið verði á beinu stjórnsýslusambandi milli stofnunarinnar og iðnaðarráðuneytisins. Er tillaga um það meðal annars gerð í samræmi við niðurstöðu stjórnsýsluendurskoðunar á Byggðastofnun sem birtist í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1996. Þar kom meðal annars fram að eðlilegt væri að stjórnsýsluleg staða Byggðastofnunar yrði tekin til athugunar og komið yrði á stjórnsýslusambandi milli ráðherra og stofnunarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er því lögð til sú breyting á stjórnskipulegri stöðu stofnunarinnar að iðnaðarráðherra fari með yfirstjórn Byggðastofnunar og að stofnunin og stjórn hennar beri ábyrgð á störfum sínum gagnvart ráðherra. Með þessu móti verður ráðherra jafnframt ábyrgur á málefnum stofnunarinnar, bæði á grundvelli laga um ráðherraábyrgð og gagnvart Alþingi, en fram til þessa hefur lagastaðan verið sú að enginn hefur borið slíka ábyrgð gagnvart þinginu …“ — vegna þess að stofnunin var sem sagt sjálfstæð, svo að ég skjóti því hér inn. Ég held nú áfram lestrinum:

„Það hefur því ekki heldur sjálft getað haldið uppi því eftirliti sem stjórnskipunin gerir almennt ráð fyrir að þingið hafi með stjórnvöldum. Jafnframt gefst þá kostur á að skjóta ágreiningi um ákvarðanir stofnunarinnar til ráðherra sem æðra stjórnvalds en slík kæruleið hefur ekki verið fyrir hendi. Í samræmi við þetta er lagt til að stjórn stofnunarinnar þiggi umboð sitt frá ráðherra í stað Alþingis, enda er það sú skipan sem íslensk stjórnskipan gerir almennt ráð fyrir og nauðsynlegt að haga því svo eigi ráðherra að geta borið ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar gagnvart þinginu.“

Þetta er dálítið mikilvægt. Hér var sem sagt verið að gera þá breytingu að Alþingi skipaði eða kysi ekki lengur stjórn til þessarar sjálfstæðu stofnunar, sem heyrði áður beint undir Alþingi. Þó að hún væri stjórnskipulega, t.d. í fjárlögum, sett undir eitthvert ráðuneyti þá var það engu að síður þannig að um væri að ræða sjálfstæða stofnun og Alþingi kysi í stjórn hennar. Hún heyrði með þeim hætti beint undir Alþingi. Þarna var gerð þessi breyting að þetta er fært undir iðnaðarráðuneytið og um leið er stofnunin gerð sérstök.

Þegar verið er að leggja þessar breytingar til, og ég ítreka að ég er ekki að taka mjög stífa efnislega afstöðu til þeirra, mér finnst þær að sumu leyti alla vega vera rökréttar, vaknar þessi spurning: Hver verður staða stofnunarinnar? Ef hún er orðin þannig að veigamiklir þættir hennar, eins og lánveitingarnar, ábyrgðirnar og fjármálaleg umsýsla, eru ekki lengur kæranlegir til ráðherrans er þá stofnunin orðin frekar sjálfstæð í þeim skilningi laganna en sérstök? Þetta finnst kannski einhverjum að skipti ekki miklu máli en það gerir það óneitanlega. Ég held að það væri fróðlegt fyrir þá þingnefnd sem fær þetta mál til meðhöndlunar að velta því aðeins fyrir sér hver staða stofnunarinnar verður eftir þetta. Hún verður óneitanlega sjálfstæðari þegar kemur að fjármálalegri umsýslu, það kunna að vera efnisleg rök fyrir því. En það vekur hins vegar upp spurningar um stöðu hennar.

Þetta voru mínar almennu vangaveltur um þetta mál sem mér fannst eiga erindi inn í þessa umræðu núna. Ég vil hins vegar segja það almennt að ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að stofnunin eigi að starfa áfram sem sérstök stofnun. Hæstv. ráðherra hefur líka greint frá því að verið sé að vinna að samþættingu verkefna og ég hef litið þannig á að með þeirri yfirlýsingu sé verið að segja að ekki sé ætlunin að sameina stofnunina sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið eins og heyrst hefur fleygt og því fagna ég út af fyrir sig.

Ég er líka sammála þeirri áherslu sem hæstv. ráðherra hefur lagt um það að stofnunin eigi að vera áfram lánastofnun, ég held hún hafi hlutverki að gegna í þeim efnum, ekki síst á þeim svæðum sem hafa staðið lakast varðandi t.d. hagvöxt og við þekkjum og þar sem lánastofnanir hafa skirrst við að koma að með lánveitingar með eðlilegum hætti nema þá í ákveðnum undantekningum hjá sterkari fyrirtækjum, þess vegna held ég að stofnunin eigi fullkomið hlutverk fyrir höndum.

Ég vil þá í bláendann ítreka spurningu mína, kannski dálítið fyrir forvitni sakir, en mér finnst það samt eiga alveg erindi inn í umræðuna um það þegar verið er að falla frá því að hægt sé að kæra þessar lánveitingar og aðra skylda hluti til hæstv. ráðherra, hvort mikil áþján hafi verið af þessu, hvort það hafi verið gert í miklum mæli og hvort af því gefna tilefni sé verið að flytja þetta frumvarp.