Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 14:35:21 (2879)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi eftirlit Fjármálaeftirlitsins með fjármálafyrirtækjum í ríkiseigu þá tel ég það mjög mikilvægt að Fjármálaeftirlitið meti og hafi eftirlit með öllum fjármálafyrirtækjum á sömu forsendum óháð eignarhaldi. Það er mjög mikilvægt til að greina áhættu rétt og til að skapa heilbrigða rekstrarumgjörð á fjármálamarkaði. Meðal annars þess vegna hafa stjórnvöld í yfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýst þeirri fyrirætlan að fella Íbúðalánasjóð undir eftirlit FME þannig að Fjármálaeftirlitið hafi sambærilegt eftirlit með áhættuþáttum í rekstri allra fjármálastofnana óháð eignarhaldi.

Að því er varðar stjórnarlaun Fjármálaeftirlitsins er það rétt sem hv. þingmaður nefnir að breytingar voru gerðar á því af forvera mínum áður en ég tók til starfa. Forsendur þeirrar breytingar voru að mönnun stjórnarinnar hafði reynst erfið, tíðar mannabreytingar höfðu verið í stjórninni. Hún er auðvitað ekki eins og stjórn venjulegrar ríkisstofnunar að því leyti að hún er ekki einungis með almennt eftirlit með fjármálastofnunum eða rekstrarumgjörð heldur er hún í reynd úrskurðarnefnd. Hún tekur í reynd ákvarðanir um efnislega úrlausn mála og situr oft mjög langa stjórnarfundi og undirbúningur mála er tímafrekur, ábyrgð mikil og seta í stjórn Fjármálaeftirlitsins takmarkar mjög tekjuöflunarmöguleika stjórnarmanna annars staðar. Í ljósi þessara forsendna tóku forráðamenn ákvörðunina og ég tel að hún hafi verið ágætlega rökstudd að þessu leyti.