Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 14:39:53 (2881)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekki miklu við fyrri svör að bæta. Ég tel eins og ég rakti áðan að ákvörðun um stjórnarlaun hafi byggst á tilteknum efnislegum forsendum og satt að segja ekki auðvelt að finna sambærilegar stofnanir. Og þótt seta í úrskurðarnefndum sé í mörgum tilvikum tímafrek og flókin hefur hún ekki samsvarandi áhrif á aflahæfi nefndarmanna eins og seta í stjórn Fjármálaeftirlitsins, því að seta í stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur til dæmis í för með sér svo víðtækt vanhæfi að ef lögmaður situr í stjórn Fjármálaeftirlitsins getur hann ekki verið á stofu með öðrum lögmönnum. Hann getur sjálfur ekki unnið fyrir nokkurt annað fjármálafyrirtæki og ef hann er á stofu með öðrum lögmönnum, sameiginlegri eign með öðrum lögmönnum, eru þeir allir vanhæfir til starfa. Það veldur því auðvitað að ekki er hægt, eða mjög erfitt er að fá lögmenn til að sitja í stjórn FME og ekki er hægt að fá löggilta endurskoðendur á sömu forsendum til að sitja í stjórn FME sem eru starfandi. Ég verð því að segja eins og er að það er leitun að sambærilegum takmörkunum á aflahæfi fólks eins og leiða af setu í stjórn FME.