Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. desember 2011, kl. 14:43:52 (2883)


140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:43]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði um fyrirkomulag álagningargjalda Fjármálaeftirlitsins og hvort þar væri um sjálftöku að ræða. Í gildandi lögum — sem ég held að hv. þingmaður hafi komið að að setja, ekki var ég meðal þingmanna hér 1999 — segir í 2. gr.: „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. […] Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila […] Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“

Svigrúm ráðherra til endurmats samkvæmt þessum orðum er satt að segja ekki neitt.

Ég vil upplýsa hv. þingmann um eitt fyrst við erum komnir í þessa umræðu. Ég var einu sinni starfandi lögmaður og sat þá í ráðgjafarnefnd sem þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, skipaði um opinbert eftirlit. Við gerðum athugasemdir við þetta fyrirkomulag en þá var það afstaða viðskiptaráðuneytisins á þeim tíma að í þessum lögum fælist að það væri ekkert svigrúm sem ráðherra hefði til að endurmeta tillögur FME. Það hefur verið viðtekin lagatúlkun að því er ég best veit síðan. Ráðherra hefur aldrei endurmetið tillögur FME.

Það sem ég hef núna gert er að óska eftir því að FME endurmeti áætlanir sínar í ljósi mikillar útgjaldaaukningar og gagnrýni sem fram á hana hefur komið. FME hefur svarað því með tillögum um lækkun upp á 115 millj. kr. en jafnframt tekið fram að eftirlitið telji sig ekki skuldbundið til að koma fram með slíkar tillögur og fjárlagaramminn sem samþykktur var í gær felur í sér að farið verði að tillögum FME með þessari 115 millj. kr. lækkun.